De Bruyne greindi frá þessu á samfélagsmiðlum í dag. „Allar sögur taka enda en þetta hefur klárlega verið besti kaflinn. Njótum þessara síðustu augnablika saman,“ skrifaði Belginn meðal annars.
Dear Manchester. 💙 pic.twitter.com/2EdhVYOLti
— Kevin De Bruyne (@KevinDeBruyne) April 4, 2025
City keypti De Bruyne frá Wolfsburg 2015. Síðan þá hefur hann leikið 413 leiki fyrir félagið, skorað 106 mörk og gefið fjölda stoðsendinga.
Hinn 33 ára gamli De Bruyne hefur unnið allt sem hægt er að vinna með City, meðal annars Englandsmeistaratitilinn sex sinnum og Meistaradeild Evrópu einu sinni.
Eftir að hafa orðið Englandsmeistari fjórum sinnum í röð hefur gengið illa hjá City í vetur. Liðið er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 51 stig eftir þrjátíu leiki. Næsti leikur City er gegn nágrönnunum í Manchester United á sunnudaginn.