Enski boltinn

Harry Redknapp kallaði Tuchel þýskan njósnara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Redknapp stýrði meðal annars West Ham United, Portsmouth og Tottenham á stjóraferlinum. Undir hans stjórn varð Portsmouth bikarmeistari 2008.
Harry Redknapp stýrði meðal annars West Ham United, Portsmouth og Tottenham á stjóraferlinum. Undir hans stjórn varð Portsmouth bikarmeistari 2008. getty/Dave Benett

Fótboltaþjálfarinn þrautreyndi Harry Redknapp kallaði Thomas Tuchel, þjálfara enska landsliðsins, þýskan njósnara á góðgerðarsamkomu á dögunum.

The Guardian komst yfir myndband af samkomunni þar sem Redknapp lét ummælin um Tuchel falla. Hann var þá spurður hvort enska knattspyrnusambandið hefði tekið rétta ákvörðun með því að ráða Þjóðverjann og reyndi að slá á létta strengi.

„Ég veit ekki. Ef ég á að vera hreinskilinn held ég að hann sé þýskur njósnari. Ég er að segja ykkur það. Hann var sendur til að klúðra hlutunum fyrir okkur,“ sagði Redknapp og uppskar hlátur viðstaddra.

Enska landsliðið vann fyrstu tvo leiki sína undir stjórn Tuchels. England sigraði Albaníu, 2-0, í undankeppni HM 2026 á föstudaginn og Lettland á mánudaginn, 3-0.

Einhverjir hafa fett fingur út í ráðninguna á Tuchel þar sem hann er ekki Englendingur. Tuchel er þriðji útlendingurinn sem stýrir enska landsliðinu á eftir Sven-Göran Eriksson og Fabio Capello.

Eftir að sá síðastnefndi hætti sem landsliðsþjálfari 2012 var Redknapp sterklega orðaður við starfið. Roy Hodgson var hins vegar ráðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×