Fótbolti

Cecilía varði víti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur átt gott tímabil með Inter.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur átt gott tímabil með Inter. getty/Image Photo Agency

Inter laut í lægra haldi fyrir Fiorentina, 1-0, í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. Cecilía Rán Rúnarsdóttir varði vítaspyrnu í leiknum.

Þetta var fjórði leikur Inter í röð án sigurs. Liðið er í 2. sæti deildarinnar með 39 stig, tíu stigum á eftir toppliði Juventus. Fiorentina er í 4. sætinu með 35 stig.

Undir lok fyrri hálfleiks í leiknum í Mílanó í dag fékk Fiorentina víti. Spænski reynsluboltinn Veronica Boquete fór á punktinn en Cecilía varði spyrnu hennar.

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn kom hins vegar engum vörnum við þegar Agnese Bonfantini kom Fiorentina yfir í upphafi seinni hálfleiks. Það reyndist eina mark leiksins og gestirnir frá Flórens fóru með sigur af hólmi.

Cecilía hefur spilað nítján af 21 leik Inter í ítölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Liðið hefur aðeins fengið á sig tuttugu mörk, fæst allra í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×