Formúla 1

Hamilton dæmdur úr leik í Kína

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Árangur Lewis Hamilton í kínverska kappakstrinum var strokaður út.
Árangur Lewis Hamilton í kínverska kappakstrinum var strokaður út. afp/Greg Baker

Sjöfaldi heimsmeistarinn Lewis Hamilton hefur verið dæmdur úr leik í kínverska kappakstrinum ásamt tveimur öðrum.

Hamilton endaði í 6. sæti í Kínakappakstrinum í morgun. Árangur hans verður hins vegar þurrkaður út eftir að upp komst að plankinn undir Ferrari-bíl hans var ekki nógu þykkur. Plankar þurfa að vera ákveðið þykkir til að tryggja að bílar í Formúlu 1 séu ekki of lágir.

Samherji Hamiltons hjá Ferrari, Charles Leclerc, var einnig dæmdur úr leik sem og Pierre Gasly á Alpine. Bílar þeirra voru of léttir. Leclerc varð fimmti í kínverska kappakstrinum og Gasly ellefti.

Eftir að úrslit þremenninganna í Kína voru þurrkuð út er Hamilton í 9. sæti í keppni ökuþóra, Leclerc í 10. sætinu og Gasly í því fimmtánda.

Hamilton vann sprettkeppnina í gær. Það var hans fyrsti sigur síðan hann gekk í raðir Ferrari.

Næsta keppni tímabilsins í Formúlu 1 fer fram í Japan 6. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×