Fótbolti

Sló met Rashford og varð sá yngsti

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Myles Lewis-Skelly og Marcus Rashford fagna markinu saman. Ásamt Harry Kane, Jude Bellingham og Curtis Jones.
Myles Lewis-Skelly og Marcus Rashford fagna markinu saman. Ásamt Harry Kane, Jude Bellingham og Curtis Jones. Alex Livesey - Danehouse/Getty Images

Myles Lewis-Skelly hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn undanfarna mánuði. Hann var settur í byrjunarliðið í sínum fyrsta landsleik í gær, skoraði eftir aðeins tuttugu mínútur og bætti í leiðinni met sem Marcus Rashford hefur haldið síðan 2016.

Markið gerði Lewis-Skelly að þeim yngsta til að skora í frumraun fyrir England, en hann var aðeins átján ára og 176 daga gamall í leiknum gegn Albaníu gær, sem endaði með 2-0 sigri.

Metið hefur verið í eigu Marcus Rashford, sem var einnig í liði Englands í gær, síðan hann skoraði í fyrsta landsleiknum gegn Ástralíu í maí 2016, þá átján ára og 209 daga gamall.

„Ég er orðlaus. Ég er svo þakklátur þjálfaranum, fyrir traustið sem hann sýndi mér, og liðsfélögum mínum. Þeir veittu mér mikið traust og ég er ánægður að geta endurgoldið það. Aðdáendurnir létu mér líka líða stórkostlega og ég þakka þeim fyrir það“ sagði Lewis-Skelly í viðtali eftir leik.

Hann byrjaði almennilega að geta sér nafns í desember síðastliðnum og hefur heillað mikið með sínum frammistöðum síðan þá. Fyrsta mark hans fyrir Arsenal kom svo í síðasta mánuði gegn Englandsmeisturum Man. City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×