Fram er spáð 8. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2. Framarar enduðu í 9. sæti á síðasta tímabili, því fyrsta undir stjórn Rúnars Kristinssonar.
„Ég á von á áhugaverðu tímabili hjá Fram. Mér finnst þeir geta farið í báðar áttir. Þeir eru með sterkt byrjunarlið. Kjarninn, þriggja hafsenta kerfið, þegar þeir eru allir heilir er þetta sterkt Framlið. Vængbakverðirnir góðir. Svíinn [Simon Tibbling] á miðsvæðinu, ef þeir ná að loka því er þetta mjög spennandi lið,“ sagði Albert.
„Ef Rúnar nær að halda smá stöðugleika í Vuk [Oskari Dimitrijevic] og svo þarf að fá Gumma Magg aftur í gang.“
En hverjir eru styrkleikar Fram-liðsins?
„Þéttur varnarleikur, ef þeir ná að halda mönnum heilum. Breiddin er ekkert sérstaklega góð. Þeir hafa sótt mikið af leikmönnum í neðri deildirnar til að auka breiddina. Varnarleikurinn er styrkleiki hjá þeim. Þeir þurfa að haldast heilir; Þorri [Stefán Þorbjörnsson], Kyle [McLagan] og Kennie [Chopart],“ sagði Albert.
Fram fær ÍA í heimsókn í fyrsta leik sínum í Bestu deildinni sunnudaginn 6. apríl.