Tilkynnt hefur verið um á fimmta hundrað morða til lögreglunnar frá upphafi árs. Þá hefur fjárkúgunum fjölgað mikið og árásum á opinberum stöðum sömuleiðis, að sögn AP-fréttastofunnar. Neyðarástandið sem Dina Boluarte forseti lýsti yfir gildir í þrjátíu daga. Lögreglan og herinn getur nú handtekið fólk án handtökuskipunar.
Steininn tók úr á sunnudag þegar 39 ára gamall söngvari var skotinn til bana þegar vopnaðir menn réðust á hljómsveitarrútu hans og félaga hans eftir tónleika í Lima. Daginn áður sprakk sprengja og særði að minnsta kosti ellefu manns á veitingastað í borginni.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust atkvæðagreiðslu um vantraust á hendur Juan José Santiváñez, innanríkisráðherra, sem þeir saka um að hafa engin úrræði gegn ofbeldinu. Greiða á atkvæði um tillöguna síðar í vikunni.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnvöld lýsa yfir neyðarástandi vegna ofbeldisins. Það varði síðast í tvo mánuði frá september fram í desember. Neyðarástandi var einnig lýst yfir vegna mótmæla sem brutust út eftir að Pedro Castillo, forvera Boluarte, var vikið úr embætti og hún tók við.