Íslenski boltinn

Kveður Selfyssinga ó­vænt: „Það er synd að kveðja á þennan hátt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Manuel López fagnar þegar Selfyssingar tryggðu sér sigur í bikarkeppni neðri deilda á Laugardalsvellinum síðasta haust.
Jose Manuel López fagnar þegar Selfyssingar tryggðu sér sigur í bikarkeppni neðri deilda á Laugardalsvellinum síðasta haust. @selfossfotbolti

Spænski varnarmaðurinn Jose Manuel López verður ekki með liðinu i Lengjudeild karla í fótbolta í sumar. Selfyssingar segja frá þessum óvæntum fréttum rétt fyrir mót.

Spænski miðvörðurinn, kom eins og stormsveipur inn í lið Selfoss fyrir síðasta tímabili, en hann verður ekki með liðinu í sumar vegna persónulegra aðstæðna.

„Jose átti gott tímabil, lék 27 leiki fyrir félagið og skoraði tvö mörk. Hann aðlagaðist samfélaginu á Selfossi vel og var mikilvægur hlekkur innan sem utan vallar,“ segir í frétt á miðlum Selfyssinga.

Selfyssingar tryggðu sér sæti í Lengjudeildinni með því að vinna 2. deildina með átta stiga mun.

Á miðlum Selfyssinga má einnig finna stutt viðtal við leikmanninn sjálfan en Jose segist kveðja Selfoss með söknuði.

„Það er synd að kveðja á þennan hátt. Vegna persónulegra aðstæðna þarf ég að kveðja Selfoss. Ég er gríðarlega stoltur af því að hafa tilheyrt þessari frábæru fjölskyldu sem sem samfélagið á Selfossi er og klúbburinn sjálfur,“ sagði Jose.

„Ég vil þakka ykkur fyrir allar fallegu stundirnar sem við höfum átt saman, fyrir hjálpina sem þið hafið sýnt mér og fyrir árangurinn sem við náðum saman. Allt mun þetta lifa með mér um ókomna tíð,“ sagði Jose.

„Selfoss mun alltaf eiga dýrmætan stað í hjarta mér. Ég mun halda áfram að styðja Selfoss. Takk fyrir mig og Áfram Selfoss,“ sagði Jose.

Fyrsti leikur Selfyssinga er á móti Grindavík á heimavelli 2. maí næstkomandi eða eftir 53 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×