Körfubolti

„Ó­af­sakan­legt hvernig við mættum til leiks“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari Tindastóls, var svekktur með byrjun sinna manna í leiknum. 
Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari Tindastóls, var svekktur með byrjun sinna manna í leiknum.  Vísir/Anton Brink

Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari Tindastóls, var ekki sáttur við hvernig lærisveinar sínir byrjuðu og enduðu leikinn þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Álftanesi í 19. umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í Kaldalónshöllinni í kvöld. 

„Ég er fyrst og fremst hundsvekktur með það hvernig við mætum til leiks. Við erum gjörsamlega á hælunum fyrstu mínútur leiksins og erum sirka 20 stigum undir þegar skammt er liðið af leiknum. Leikmenn mínir tóku sig vissulega saman í andlitinu en það dugði því miður ekki til,“ sagði Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari Tindastóls.

„Það má samt ekki gleyma því að við erum að mæta hörkuliði Álftaness sem hefur verið á miklu skriði og var hér að vinna sinn fimmta leik í röð. Þetta er vel mannað lið með reynslumikla leikmenn og við vissum það vel að við værum að fara í hörkurimmu. Þess vegna varð ég fyrir vonbrigðum með hvernig við spiluðum í fyrsta leikhluta,“ sagði Benedikt Rúnar þar að auki.

„Við ýtum þessu bara til hliðar núna og áfram gakk. Við erum að spila við Keflavík heima í næstu umferð og ég treysti því að mínir menn mæta ekki með hálfum hug inn í það verkefni eins og þeir gerðu hér í kvöld. Það er farið að líða að þeim tíma þar sem allt er undir og við þurfum að koma okkur upp á tærnar ef vel á að fara,“ sagði hann um komandi verkefni Tindastóls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×