Körfubolti

Mikil­vægur sigur Þórs í há­spennu­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jordan Semple var frábær í kvöld.
Jordan Semple var frábær í kvöld. vísir/diego

Þór Þorlákshöfn vann hádramatískan sigur á Stjörnunni í framlengdum leik í Bónus deild karla í körfubolta, lokatölur 94-91.

Leikurinn fór hratt af stað og bæði lið virkuðu klár í slaginn í Þorlákshöfn. Það var mikið jafnræði með liðunum í fyrsta leikhluta en að honum loknum leiddu gestirnir með þremur stigum.

Munurinn var enn þrjú stig þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik, staðan þá 41-44. Gestirnir úr Garðabæ juku forystuna í þriðja leikhluta en Þórsarar lögðu ekki árar í bát. Í fjórða leikhluta hrökk varnarleikur heimamanna endanlega í gírinn og þó sóknarleikurinn hafi ekki verið fullkominn tókst þeim að knýja fram framlengingu.

Þar reyndust Þórsarar svo sterkari aðilinn og unnu á endanum þriggja stiga sigur, lokatölur 94-91.

Mustapha Jahhad Heron var stigahæstur í liði Þórs með 31 stig. Nikolas Tomsick kom þar á eftir með 24 stig. Þá skoraði Jordan Semple 15 stig, tók 19 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Hjá Stjörnunni var Hilmar Smári Henningsson stigahæstur með 24 stig. Shaquille Rombley skoraði 20 stig og tók 18 fráköst.

Stjarnan er áfram í 2. sæti með 14 sigra og 5 töp. Þór er nú í 7. sæti með 9 sigra og 10 töp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×