Edwards fékk tvær tæknivillur og var rekinn út úr húsi þegar Minnesota tapaði fyrir Los Angeles Lakers, 111-102, í nótt.
Edwards hefur nú fengið sextán tæknivillur á tímabilinu og fer sjálfkrafa í eins leiks bann. Hann missir af leiknum gegn Utah Jazz í dag nema önnur af tæknivillunum hans gegn Lakers verði dregin til baka.
Undir lok 1. leikhluta fékk Edwards tæknivillu ásamt Jarred Vanderbilt, leikmanni Lakers, eftir að þeir hrintu hvor öðrum. Edwards fékk svo aðra tæknivillu fyrir mótmæli um miðjan 3. leikhluta. Hann blótaði þá dómara leiksins.
Edwards er fyrsti leikmaðurinn síðan DeMarcus Cousins tímabilið 2016-17 til að fá sextán tæknivillur fyrir mars.
Chris Finch, þjálfari Minnesota, segir að Edwards verði að læra að hemja skap sitt.
„Hann verður að gera betur. Hann missir sig of oft. Margar tæknivillurnar eru verðskuldaðar. Þeir missa af einhverjum villum hér og þar en hann verður að gera betur. Við höfum talað við hann um þetta svo þetta er á hans ábyrgð,“ sagði Finch.
Edwards skoraði átján stig, tók sex fráköst og fimm stoðsendingar á þeim 26 mínútum sem hann spilaði í leiknum í nótt.
Minnesota er í 8. sæti Vesturdeildarinnar með 32 sigra og 28 töp.