Körfubolti

„Þetta er eins og að vera dömpað“

Sindri Sverrisson skrifar
Luka Doncic sýndi úr hverju hann er gerður í sigrinum gegn Denver Nuggets um helgina.
Luka Doncic sýndi úr hverju hann er gerður í sigrinum gegn Denver Nuggets um helgina. Getty/AAron Ontiveroz

Eftir rólega fyrstu leiki í búningi LA Lakers, eftir ein óvæntustu og merkustu leikmannaskipti í sögu NBA-deildarinnar, þá sýndi Luka Doncic snilli sína í sigrinum gegn Denver Nuggets um helgina. Slóveninn er til umræðu í nýjasta þætti Lögmála leiksins á Stöð 2 Sport 2 í kvöld.

„Fyrstu þrjá leikina þá var þetta bara áhyggjuefni,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson þegar farið var yfir þá staðreynd að Doncic hefði skorað að meðaltali 14,7 stig í fyrstu leikjunum fyrir Lakers. Hann skoraði hins vegar 32 stig gegn Nuggets, tók tíu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

„Áhyggjuefni?“ spurði Leifur Steinn Árnason og virtist blöskrað. „Ef við skoðum þetta, og erum búnir að fá aðeins upplýsingar frá heimalandi hans… Hann var bara í sjokki. Þetta er í fyrsta skipti sem hann lendir í einhverju. Hann hefur siglt í gegnum lífið á toppnum,“ sagði Leifur en umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Lögmál leiksins - Doncic klár eftir „sjokkið“

Tómas Steindórsson setti spurningamerki við hversu mikið áfall það væri fyrir menn að vera skipt til LA Lakers.

„Nei, nei, en það var það fyrir hann. Hann var að fara að flytja núna 1. mars í nýja 15 milljón dollara húsið sitt í Dallas. Hann ætlaði að búa alla ævi í Dallas,“ sagði Leifur.

„Þetta er eins og að vera dömpað. Þetta er örugglega ógeðslega óþægilegt,“ skaut Hörður Unnsteinsson inn í og Kjartan svaraði:

„Ef honum var dömpað þá er hann kominn í betra samband núna.“

Meira af umræðunni má sjá hér að ofan en þátturinn í heild verður sýndur á Stöð 2 Sport 2 í kvöld klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×