Fótbolti

Öruggur sigur Akur­eyrar­kvenna í Lengju­bikarnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þór/KA fagnaði sigri í dag.
Þór/KA fagnaði sigri í dag. Vísir/Pawel

Lið Þór/KA vann í dag öruggan sigur á Fram þegar liðin mættust í A-deild Lengjubikars kvenna í Boganum.

Bæði lið voru búin að vinna annan leik sinn af tveimur í Lengjubikarnum til þessa en Þór/KA spilar í Bestu deildinni í sumar líkt og Fram sem eru nýliðar í deildinni.

Þór/KA náði forystunni með marki Sonju Bjargar Sigurðardóttur á 5. mínútu en Alda Ólafsdóttir jafnaði metin um miðjan fyrri hálfleikinn.

Karen María Sigurgeirsdóttir og Sonja Björg sáu hins vegar til þess að Þór/KA fór inn í hálfleikinn með tveggja marka forystu með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla skömmu eftir mark Öldu.

Í síðari hálfleiknum bættu Akureyrarkonur við tveimur mörkum. Margrét Árnadóttir skoraði fjórða markið og Karen María skoraði sitt annað mark og fimmta mark Þór/KA.

Lokatölur 5-1 og Þór/KA er nú með jafnmörg stig og Valur og Þróttur sem þó hafa leikið einum leik minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×