Fótbolti

Mikael með Mo Salah frammi­stöðu í sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikael Neville Anderson skoraði í öðrum leiknum í röð í dönsku úrvalsdeildinni í dag.
Mikael Neville Anderson skoraði í öðrum leiknum í röð í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Getty/Catherine Ivill

Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson átti flottan leik í dag þegar lið hans vann sannfærandi sigur í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Mikael var bæði með mark og stoðsendingu í 4-0 sigri AGF frá Árósum á AaB frá Álaborg.

Mikael lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Patrick Mortensen á 20. mínútu og skoraði síðan sjálfur annað mark liðsins eftir aðeins þriggja mínútna leik í þeim síðari.

Þremur mínútum síðar var staðan orðið 3-0 eftir annað mark frá Patrick Mortensen en fjórða markið var sjálfsmark á 71. mínútu.

Mikael var að skora í öðrum leiknum í röð, eiga þátt í marki í þriðja leiknum í röð og er nú kominn með fjögur mörk og sex stoðsendingar í nítján deildarleikjum á tímabilinu.

AGF liðið hefur fengið sex stig og skorað átta mörk í síðustu tveimur leikjum sínum. Liðið er í þriðja sæti deildarinnar eftir þennan góða sigur og komið með tuttugu mörk í plús í markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×