Fótbolti

Kom inn á í fyrri háfleik og skoraði í fyrsta sinn í fimm mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson fagnar hér markinu sínu fyrir Preußen Münster á móti Jahn Regensburg.
Hólmbert Aron Friðjónsson fagnar hér markinu sínu fyrir Preußen Münster á móti Jahn Regensburg. Getty/Friso Gentsch/

Hólmbert Aron Friðjónsson átti flotta innkomu í leik Preußen Münster í þýsku b-deildinni í fótbolta í dag. Hann skoraði langþráð mark, það fyrsta hjá honum í fimm mánuði.

Preußen Münster vann þarna 2-0 heimasigur á Jahn Regensburg.

Sigurinn kemur Preußen Münster upp í fimmtán sæti deildarinnar og úr fallsæti en þeir enduðu þarna þriggja leikja taphrinu.

Hólmbert byrjaði samt á bekknum en kom inn á völlinn strax á 35. mínútu leiksins.

Sjö mínútum síðar var íslenski framherjinn búinn að koma Preußen Münster í 1-0.

Hólmbert skoraði markið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá David Kinsombi.

Þannig var staðan þar til að Simon Scherder bætti við marki með skalla á 69. mínútu.

Þetta var þriðja mark Hólmberts í þýsku b-deildinni á tímabilinu en það fyrsta síðan í september. Hann skoraði í tveimur fyrstu leikjum sínum á leiktíðinni en hafði ekki skorað í tólf deildarleikjum í röð.

Síðasta mark hans hafði einmitt komið í fyrri leiknum á móti Jahn Regensburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×