Mac McClung, leikmaður Orlando Magic, hrósaði sigri í troðslukeppninni en auk hans tóku Stephon Castle (San Antonio Spurs), Andre Jackson (Milwaukee Bucks) og Matas Buzelis (Chicago Bulls) þátt í henni.
Strákarnir í Lögmáli leiksins fóru yfir troðslukeppnina í þætti kvöldsins. Þeim fannst sérstaklega mikið til tilþrifa McClungs koma. Hann virðist allavega vera betri í troðslunum en að spila körfubolta en hann hefur aðeins spilað fimm leiki í NBA á ferlinum.
„Hann er búinn að spila þrjá NBA-leiki á síðustu þremur árum og er búinn að vinna troðslukeppnina þrisvar,“ sagði Leifur Steinn Árnason.
„Hann er alltaf ræstur út fyrir Stjörnuleikshelgina og svo kemur mánudagur: Í G-deildina með þig, drullaðu þér aftur í G-deildina, kallinn minn,“ sagði Tómas Steindórsson sem var hrifinn af því sem hann sá í troðslukeppninni.
„Ég ætla að fullyrða að þetta sé besta troðslukeppnin síðustu fimm ár,“ sagði Tómas.
Troðslukeppnina og umræðuna um hana má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Þáttur kvöldsins hefst klukkan 20:00 á Stöð 2 Sport 2.