Kristrún segist hafa lagt áherslu á að efla samband Íslands við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Hún hafi einnig átt samtöl við fjölda leiðtoga Evrópu og ríkja innan Atlantshafsbandalagsins.
„Það sem ber hæst er tilfinningin núna að Evrópa fari að taka aukna ábyrgð á sínum öryggis- og varnarmálum. Þetta er auðvitað búið að vera lengi í umræðunni en ákveðnar vendingar, sérstaklega af hálfu Bandaríkjanna, þegar leið á síðustu viku hefur kannski ýtt fólki í ákafara samtal hvað það varðar,“ segir Kristrún.
Bandaríkjamenn fóru mikinn
JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, vakti mikla athygli þegar hann hreinlega urðaði yfir evrópska leiðtoga og sakaði þá um að hunsa vilja þjóða sinna, snúa úrslitum kosninga og hunsa trúfrelsi. Hann fann leiðtogum Evrópu í raun allt til foráttu sem ekki tengist varnar- og öryggismálum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur einnig verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafa lýst því yfir að hann hefði rætt við Vladímír Pútín Rússlandsforseta um mögulegar friðaviðræður án þess að hafa evrópska ráðamenn eða Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta með í ráðum.
„Við höfum á þessum tveimur til þremur dögum séð ýmsar vendingar, hlutirnir hafa hreyfst hratt en ég upplifi að leiðtogar í Evrópu séu farnir að taka stöðuna það alvarlega að núna er mikið farið að tala um aukin framlög til varnarmála og hvernig við getum tryggt það að stuðningur verði áfram tryggður til Úkraínu,“ segir Kristrún.
Framlag Íslands mikilvægt
Aðspurð segir Kristrún þátt Íslands geta verið veigamikinn í slíkri uppbyggingu.
„Ef við hugsum bara um Ísland þá erum við virkir þátttakendur í NATO og allar þessar Evrópuþjóðir sem eru almennt að styrkja varnir sínar eru auðvitað margar hverjar í NATO. Þar erum við með mjög stórt hlutverk, þótt við séum fjárhagslega á lægri stað þá erum við með Keflavík og grunnstoðir fyrir NATO. En svo erum við líka, ég ásamt utanríkisráðherra, að fara í að endurskoða ákveðna varnarþætti í utanríkisstefnu Íslands og þetta verður án efa til umræðu á kjörtímabilinu,“ segir Kristrún.
Sjá einnig: Kallar eftir evrópskum her
Hún segir erfitt að ráða í ummæli Trump og Vance. Raunveruleg stefna Bandaríkjanna í þessum málum eigi tíminn eftir að leiða í ljós en að blátt áfram orðræða þeirra hafi ýtt undir raunveruleg skref í varnarmálum í Evrópu, blásið í ráðamenn þar eldmóði.
„Þetta er búið að vera í farvatninu í langan tíma, að auka framlög til varnarmála. Skipuleggja sig líka með samhæfðari hætti, þetta snýst ekki bara um fjárframlög heldur hvernig fólk beitir sér, mér finnst það jákvæður tónn,“ segir Kristrún.
Ísland verði undanþegið tollastríði
Hún hvetur til stillingar og tekur ummælum úr Hvíta húsinu af yfirvegun.
„Það eru þrjár, fjórar vikur búnar að þessu kjörtímabili nýs Bandaríkjaforseta. Fólk þarf líka að halda ró sinni. Fólk er enn að reyna að átta sig á hver raunverulega stefna Bandaríkjamanna verður. Það hafa verið skilaboðin frá okkur á Íslandi líka, fylgjumst með, þetta er mikilvægt vinasamband milli Evrópu og Bandaríkjanna og Ísland er í miðjunni,“ segir hún.
„En ég vil líka bæta við, ég er hér fyrst og fremst til að gæta hagsmuna Íslands, ekki bara þegar kemur að varnarmálum heldur einnig viðskiptahagsmunum. Og ég hef átt fjölda tvíhliða funda með leiðtogum hér til að tryggja það ef það kemur til tollastríðs milli Evrópu og Bandaríkjanna að Ísland verði undanþegið því, að við lendum ekki á milli, og ég hef fengið verulega góðar móttökur.“„
„Fólk er uggandi“
Kristrún segir jákvæðan tón meðal ráðamanna álfunnar og vilja til staðar til að efla samstarf innan hennar enn frekar. Óvissa ríki og fólk sé uggandi en mikilvægt sé að anda ofan í kviðinn.
„Það er sú áhersla sem kemur frá okkur fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Það snýst ekki um að Evrópa sé að fjarlægjast Bandaríkin eða það séu að verða einhverjar mjög neikvæðar vendingar í sambandi við Bandaríkin. Heldur bara að sambandið er að breytast, vigtirnar eru að breytast og bandamenn geta átt í mismunandi samskiptum og gengið í gegnum ýmislegt en haldið áfram að vera bandamenn,“ segir hún.
„Við erum NATO-þjóð, við erum líka í EES og þess vegna erum við að gæta viðskiptahagsmuna en með sterk tengsl við Bandaríkin. Þannig að nú þarf fólk að anda í kviðinn og ákveða næstu skref. En þetta hafa verið mjög góðar umræður um helgina og ég kem jákvæð út af þessum fundi hvað varðar hagsmuni Íslands og við höfum fengið góðar móttökur fyrir því sem við höfum verið að halda utan um fyrir Íslands hönd.“