Íslenski boltinn

Gylfi fyrir­liði í jafn­tefli á Akra­nesi

Sindri Sverrisson skrifar
Johannes Vall í leik gegn Val á síðustu leiktíð. Hann skoraði gegn Val í dag.
Johannes Vall í leik gegn Val á síðustu leiktíð. Hann skoraði gegn Val í dag. vísir/Anton

ÍA og Valur gerðu 1-1 jafntefli í A-deild Lengjubikars karla í fótbolta í Akraneshöllinni í dag.

Gylfi Þór Sigurðsson, sem hefur verið í umræðunni vegna tilboðs Víkings í hann í gærkvöld, var með fyrirliðabandið hjá Val í dag, þar sem Hólmar Örn Eyjólfsson byrjaði á bekknum. Gylfi spilaði fram á 83. mínútu þegar honum var skipt af velli. Þá var staðan þegar orðin 1-1.

Ómar Björn Stefánsson virtist hafa komið Skagamönnum yfir í kjölfar hornspyrnu í fyrri hálfleik en hann var dæmdur rangstæður. 

Heimamenn komust hins vegar yfir þegar Johannes Vall vann boltann af Tómasi Bent Magnússyni, nýjum leikmanni Vals sem kom frá ÍBV, framarlega á vinstri kantinum. Svíinn óð með boltann inn í teiginn vinstra megin og skoraði með góðu skoti neðst í fjærhornið, framhjá Selfyssingnum Stefáni Þór Ágústssyni sem stóð í marki Vals. ÍA var því 1-0 yfir í hálfleik.

Valsmenn jöfnuðu metin loks rúmum tíu mínútum fyrir leikslok eftir að vítaspyrna var dæmd, að því er virtist fyrir litlar sakir. Patrick Pedersen tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi.

Viktor Jónsson var nálægt því að tryggja ÍA þrjú stig í uppbótartíma en Stefán Þór gerði vel í að verja skalla frá honum í horn.

Valsmenn eru nú með fjögur stig í riðli 1, eftir 4-0 sigur gegn Fjölni í fyrstu umferð, en Skagamenn hafa gert jafntefli í báðum leikjum sínum því þeir gerðu 2-2 jafntefli við Vestra fyrir viku. Þróttarar eru efstir í riðlinum eftir sigra gegn Grindavík og Fjölni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×