Málið snýst um einn frægasta koss seinni ára en Rubiales kyssti Jenni Hermoso, leikmann spænska landsliðsins, á munninn eftir úrslitaleik HM árið 2003. Koss sem hún segist ekki hafa samþykkt en Rubiales er á öðru máli.
„Þetta var ótrúleg stund fyrir hana. Við vorum að þakka hvort öðru og svo tók hún fast utan um mjöðmina á mér. Ég spurði hana þá hvort ég mætti kyssa hana og hún sagði já,“ sagði Rubiales í vitnastúkunni en hans framburður er á skjön við upplifun Hermoso sem segist alls ekki hafa beðið um koss.
„Þetta var gleðistund og eitthvað sem gerðist mjög hratt og í raun upp úr þurru. Ég tók svo utan um hana svo hún myndi ekki detta aftur fyrir sig á verðlaunapallinum.“
Sérfræðingur í varalestri hefur vitnað um að Rubiales hafi beðið um leyfi fyrir kossinum. Á myndbandinu sést aftur á móti ekki hvernig Hermoso svarar.
Rubiales þverneitar fyrir að hafa brotið lög en viðurkennir að hafa gert mistök með kossinum sem hafi ekki verið viðeigandi fyrir mann í hans stöðu.