Körfubolti

Sjáðu stoðsendingarnar hjá Elvari í metleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson átti frábæran leik og setti nýtt met í grísku deildinni.
Elvar Már Friðriksson átti frábæran leik og setti nýtt met í grísku deildinni. @maroussibc

Elvar Már Friðriksson setti nýtt met í grísku úrvalsdeildinni í körfubolta þegar hann gaf sautján stoðsendingar í leik Maroussi liðsins í gærkvöldi. Engum hefur áður tekist að gefa svo margar stoðsendingar í einum leik í 33 ára sögu deildarinnar.

Elvar var með 20 stig og 17 stoðsendingar en Maroussi varð engu að síður að sætta sig við naumt tveggja stiga tap 94-92.

Elvar tók metið af þremur köppum sem áttu metið saman. Anthony Hickey, Vassilis Mouratos og Jordan Walker náðu allir að gefa sextán stoðsendingar í einum og sama leiknum.

Elvar bætti auðvitað félagsmetið hjá Maroussi en það var áður tólf stoðsendingar og þetta var því fimm stoðsendinga bæting. Elvar hafði sjálfur gefið mest 11 stoðsendingar í einum leik liðsins í vetur.

Elvar er með 10,7 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali á 26 mínútum í leik.

Það er bara einn leikmaður í deildinni sem hefur gefið fleiri stoðsendingar en Njarðvíkingurinn.

Hér fyrir neðan má sjá eitthvað að þessum sautján stoðsendingum hjá Elvari í leiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×