Sport

Þrettán ára sonur Peyton Manning sló í gegn á Pro Bowl

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Marshall á Pro Bowl í gær. Pabbinn spenntur fyrir aftan.
Marshall á Pro Bowl í gær. Pabbinn spenntur fyrir aftan.

Bestu leikmenn NFL-deildarinnar, sem eru ekki að fara í Super Bowl, léku sér saman um helgina í Pro Bowl.

Þessi stjörnuleikur hefur mikið breyst í gegnum tíðina og er fyrir löngu orðinn að brandara. Það sem hefur verið gert til að hressa upp á helgina er að láta leikmenn taka þátt í alls konar keppnum sem eru skemmtilegri en leikurinn sjálfur.

Bræðurnir Peyton og Eli Manning hafa stýrt liðunum síðustu ár og haldið uppi stuðinu enda einkar vinsælir vestanhafs.

Í fyrsta skipti fékk þrettán ára gamall sonur Peytons, Marshall, að leika almennilega með stjörnunum og það leynir sér ekki að hann hefur erft eitthvað af leikstjórnendahæfileikum fjölskyldunnar.

Myndband af honum kasta snertimarkssendingu á útherja Bengals, Ja´Marr Chase, hefur slegið í gegn enda sendingin frábær.

Það verða líklega ekki mörg ár í að við sjáum þennan strák í NFL-deildinni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×