Körfubolti

Gefur Los Angeles Lakers A í ein­kunn en Dallas fær fall­ein­kunn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic sækir hér á LeBron James í leik Dallas Mavericks og Los Angeles Lakers en nú eru þeir tveir orðnir samherjar.
Luka Doncic sækir hér á LeBron James í leik Dallas Mavericks og Los Angeles Lakers en nú eru þeir tveir orðnir samherjar. Getty/Tim Heitman

Dallas Mavericks og Los Angeles Lakers komu öllum á óvart með einum stærstu leikmannaskiptum sögunnar í NBA deildinni þegar liðin skiptust á súperstjörnum í nótt. Það sem meira er Dallas Mavericks var tilbúið að láta frá sér leikmann sem flest félög dreymir um að byggja lið sín í kringum.

Það eru líka margir gáttaðir á því að Dallas hafi verið tilbúið að láta frá sér slóvensku stórstjörnuna Luka Doncic.

Anthony Davis er vissulega frábær leikmaður sem er efstur hjá Lakers í stigum, fráköstum og vörðum skotum en Dallas var tilbúið að gefa Lakers tækifæri á að tefla fram LeBron-Luka tvíeykinu.

Sérfræðingur ESPN hefur farið yfir leikmannaskiptin og það er óhætt að segja að hann lýsi Los Angeles Lakers sem yfirburðar sigurvegara.

Kevin Pelton hjá ESPN gefur Los Angeles Lakers A í einkunn en Dallas fær aftur á móti falleinkunn eða F.

Doncic er fjórum árum yngri en Davis og á heilt tímabil eftir af samningi sínu auk þess að hann sjálfur getur framlengt samninginn um eitt ár.

Í mati Pelton á skiptunum þá talar um það að ef lið fengu að velja alla leikmenn NBA í dag þá væru það aðeins Victor Wembanyama hjá San Antonio og Nikola Jokic hjá Denver Nuggets sem færu á undan Doncic.

Það væri síðan val á milli Doncic og Shai Gilgeous-Alexander hjá Oklahoma City Thunder þegar kæmi að þriðja valréttinum.

Hann telur að Doncic sé í raun mikilvægasti leikmaður sögunnar til að vera skipt á milli liða. Í vetur er Doncic með 28,1 stig, 8,3 fráköst og 7,8 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann hefur verið að glíma við kálfameiðsli og spilaði síðast á jóladag.

Hér er samt aðallega verið að tala um sóknarleikinn. Þar liggur enginn vafi á hæfileikum Doncic en það er önnur saga þegar kemur að varnarleiknum og þar er Anthony Davis öflugur en Doncic oft líkari keilu.

Doncic á í sumar rétt á fjögurra ára og 229 milljón dollara samning en gæti líka skrifað undir styttri samning.

Það má deila um það hvort að þetta sé nóg til að gefa Lakers raunhæfa möguleika á því að fara alla leið í ár en það sem það gefur félaginu óumdeilanlega er ný súperstjarna til að taka við þegar LeBron James ákveður að hætta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×