Kelly, sem tryggði enska landsliðinu Evrópumeistaratitilinn árið 2022, hefur sakað forráðamenn Manchester City um mannorðsmorð. Guardian segir frá.
Kelly hefur verið í fréttum síðustu daga þar sem hún reyndi að komast í burtu frá City þar sem hún hefur fengið lítið að spila.
Daginn áður en fréttist af félagsskiptum hennar til Arsenal þá sendi hún frá sér tilfinnanríkan pistil á samfélagsmiðla þar sem hún í raun grátbað að fá að komast í burtu. Hún vildi fá spilatíma til að geta unnið sér sæti í enska landsliðinu á EM í sumar.
Kelly talaði um það að finna gleðina á ný og losna úr þvingandi aðstæðum hjá City. Hún hefur verið út í kuldanum þar og aðeins komið við sögu í sex leikjum á tímabilinu.
Heimildarmenn ESPN segja að Manchester City hafi komið í veg fyrir að Kelly færði sig yfir til nágranna þeirra í Manchester United.
Eftir að ljóst var að Kelly færi til Arsenal þá skrifaði hún annan pistil og nú var tóninn allur annar.
„Ég er svo vonsvikin að komast að því í kvöld að það er fólk hjá þessum klúbbi sem eru að láta blaðamenn fá upplýsingar til að nota gegn mér,“ skrifaði Chloe Kelly.
„Þau hafa hringt í blaðamann til að þeir getið vegið að mínu mannorði með því að birta neikvæðar og falskar fréttir um mig í fjölmiðlum. Við konur þurfum að passa upp á hvora aðra og byggja okkur upp í stað þess að brjóta hverja aðra niður. Ekki skjóta hverja aðra niður til að þjónusta okkar vinnuveitendum. Til þeirra sem bera ábyrgð á þessu þá er ég afar vonsvikin,“ skrifaði Kelly.