Liverpool mætir PSV Eindhoven í Hollandi á morgun, þegar allir 18 leikirnir í lokaumferð Meistaradeildarinnar verða spilaðir á sama tíma (klukkan 20 að íslenskum tíma). Aðeins Barcelona gæti náð Liverpool að stigum og því gæti Liverpool í versta falli endað í 2. sæti deildarkeppninnar.
Efstu átta liðin í deildarkeppninni fara beint í 16-liða úrslitin en liðin í 9.-24. sæti fara í umspil um að komast í 16-liða úrslitin. Þar að auki hefur þegar verið ákveðið að nokkru leyti hvernig leið hvers liðs verður í úrslitaleikinn, og munu liðin í 1.-2. sæti til að mynda mæta einhverju liðanna sem enda í 15.-18. sæti.
Þetta veit Slot og þess vegna eru menn eins og Mohamed Salah, Virgil van Dijk, Trent Alexander-Arnold og fleiri ekki að fara að spila neitt á morgun.
Alisson Becker, Ibrahima Konate, Ryan Gravenberch, Alexis Mac Allister, Dominik Szoboszlai og Luis Diaz eru ekki heldur í 21 manna leikmannahópi Liverpool á morgun, né heldur Joe Gomez sem sneri aftur til æfinga eftir meiðsli í dag. Diogo Jota og Curtis Jones eru meiddir.
Tók sinn tíma að skilja nýja fyrirkomulagið
Í leikmannahópi Liverpool eru því mörg minna þekkt nöfn en hópinn skipa: Kelleher, Jaros, Davies, Bradley, Mabaya, Quansah, Nallo, Robertson, Tsimikas, Norris, Endo, McConnell, Morton, Nyoni, Elliott, Morrison, Nunez, Chiesa, Gakpo, Danns, Kone-Doherty.
„Það hefur tekið sinn tíma fyrir mig að skilja nýja fyrirkomulagið en ég er núna hundrað prósent viss um að það skipti ekki máli hvort við endum í fyrsta eða öðru sæti, því það er öruggt að við mætum liði úr 15., 16., 17. eða 18. sæti og svo er dregið,“ sagði Slot á blaðamannafundi í kvöld.
„Við getum ekki sogast niður í 3. sæti. Það hefur því engin áhrif á töfluna en við munum reyna að vinna. Eins og vitur maður sagði eitt sinn við mig þá græðum við aldrei á að tapa leik,“ sagði Slot.