Strákarnir okkar gerðu sitt í dag með því að vinna Argentínu í lokaleik sínum í milliriðlakeppni HM í handbolta. Nú þurfa þeir að treysta á hjálp frá Grænhöfðaeyjum eða Slóveníu til að komast áfram í 8-liða úrslit, en það er ljóst að þeir enda í versta falli í 9. sæti mótsins.
Íslenska þjóðin bíður nú í ofvæni eftir úrslitum í leik Grænhöfðaeyja og Egyptalands sem hefst klukkan 17, og Slóveníu og Króatíu sem hefst klukkan 19:30. Vonin er mun meiri í seinni leiknum og hafa Slóvenar lofað að leggja allt í sölurnar gegn grönnum sínum, í leik sem verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Það var alltaf ljóst að Ísland myndi vinna Argentínu í dag, getumunur liðanna er einfaldlega slíkur, en eftir afar hæga og klaufalega byrjun var Ísland fimm mörkum yfir í hálfleik, 15-10. Liðið vann svo níu marka sigur, 30-21.
Viktor Gísli Hallgrímsson var valinn maður leiksins en hann varði oft vel og samtals um helming skota sem hann fékk á sig í leiknum.
Óðinn Þór Ríkharðsson varð markahæstur með sjö mörk úr átta skotum, eftir að hafa klikkað á fyrsta skoti sínu, en Gísli Þorgeir Kristjánsson, Viggó KRistjánsson Orri Freyr Þorkelsson komu næstir með fjögur mörk hver, og frábæra nýtingu.

Þó að margt bendi til þess að þetta hafi verið síðasti leikur Íslands á HM þá lifir vonin um leik í 8-liða úrslitum, og sá leikur er strax á þriðjudaginn. Því var mikilvægt fyrir Snorra að freista þess að veita mönnum hvíld eins og hentaði. Það gerði hann hiklaust.
Haukur, Aron og Viggó byrjuðu í útilínunni, Orri í vinstra horni og Ýmir á línunni. Skyttan Teitur Örn Einarsson hóf leik í hægra horni. Teitur hefur átt erfitt uppdráttar á mótinu og fá tækifæri fengið, og hann fór snemma í skammarkrókinn fyrir að skjóta í andlit Maciel í marki Argentínu.

Ýmis fleiri mistök voru gerð á fyrstu mínútum leiksins og það gekk ansi hægt hjá Íslandi að komast yfir, jafnvel þó að Viktor Gísli byrjaði vel í markinu. Það tókst loks eftir átta mínútna leik þegar Óðinn skoraði úr hraðaupphlaupi, 3-2, en áfram héldu mistökin, Ýmir fékk kælingu og Argentína var 4-3 yfir eftir tíu mínútur.
Snorri skammaði menn snemma
Viktor Gísli kom Íslandi í 5-4 með skoti yfir allan völlinn en eftir glataða sendingu Hauks komst Argentína yfir á ný, 6-5, eftir korters leik.
„Þetta er hræðilegt!“ öskraði Snorri á sína menn þegar hann tók leikhlé, enda menn algjörlega af hálfum huga í leiknum og líkt og þeir héldu að sigurinn kæmi af sjálfu sér.

Það var einhvern veginn dauft yfir öllu og vonleysið eftir tapið gegn Króötum á föstudag virtist fylgja inn í þennan leik. Og þó að Ísland kæmist yfir þá héldu menn áfram að gera kæruleysisleg mistök, líkt og staðráðnir í að spara bensínið eins og hægt væri. Það skipti bara ekki máli því Ísland er svo mikið betra lið en Argentína.
Gísli Þorgeir var einna líflegastur íslenska liðsins í fyrri hálfleik. Hann lyfti sér í loftið og kom Íslandi tveimur mörkum yfir í fyrsta sinn, 11-9, þegar sjö mínútur voru til hálfleiks. Þarna var Viktor Gísli búinn að loka markinu og Ísland náði í fyrsta sinn að skapa sér forskot með fjórum mörkum í röð, 13-9.
Ísland skoraði tvö síðustu mörkin fyrir hlé og var 15-10 yfir í hálfleik, þrátt fyrir að flestir væru í öðrum gír, og Viktor Gísli lauk fyrri hálfleik á enn einni markvörslunni en hann varði yfir helming skota Argentínumanna fyrri þrjátíu mínúturnar.

Strákarnir okkar voru svo enn líkari sjálfum sér í upphafi seinni hálfleiks, skoruðu fyrstu fjögur mörkin og tóku af allan vafa um að sigurinn yrði Íslands með því að komast í 19-10.
Janus Daði skoraði þrjú mörk á skömmum tíma og Ísland hélt miklu forskoti, þó að Argentína gæfist ekkert upp. Teitur kom svo Íslandi í 23-13 með þrumuskoti.

Þegar korter var til leiksloka kom Stiven Valencia inn á í sínum fyrsta HM-leik. Þorsteinn Leó Gunnarsson, sem ýmsir hafa kallað eftir að spili meira á mótinu, kom inn með honum og var greinilega staðráðinn í að stimpla sig inn, en fór illa með fjórar sóknir á skömmum tíma.
Það breytti þó engu um það að Ísland næði að landa öruggum stórsigri og gera sitt. Nú er bara að treysta á Grænhöfðaeyjar og Slóveníu. Enn er von um að þessu heimsmeistaramóti sé ekki lokið hjá Íslandi.
Viðtöl, einkunnir og fleira er væntanlegt á Vísi og leikur Slóveníu og Króatíu verður í beinni textalýsingu í kvöld.