Fótbolti

Ancelotti segir það góðar fréttir ef Man. City komist ekki á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lærisveinar Carlo Ancelotti unnu nauðsynlegan Meistaradeildarsigur í vikunni en sömu sögu er ekki hægt að segja um lið Manchester City.
Lærisveinar Carlo Ancelotti unnu nauðsynlegan Meistaradeildarsigur í vikunni en sömu sögu er ekki hægt að segja um lið Manchester City. Getty/Irina R. Hipolito

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, myndi fagna því ef Manchester City kæmist ekki áfram í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Manchester City er ekki meðal 24. efstu liðanna þegar aðeins ein umferð er eftir. Átta efstu fara beint í sextán liða úrslit en liðin í níunda til 24. sæti taka átt í umspili um sæti í sextán liða úrslitum.

Real Madrid tryggði sér sæti í útsláttarkeppninni með 5-1 sigri á RB Salzburg á Bernabéu en á sama tíma missti City niður 2-0 forystu og tapaði 4-2 á móti Paris Saint-Germain.

„Já,“ svaraði Carlo Ancelotti þegar hann var spurður að því hvort það væru góðar fréttir fyrir Real Madrid ef Manchester tækist ekki að komast áfram.

„Manchester City er enn að mínu mati eitt af liðunum sem geta unnið Meistaradeildina,“ sagði Ancelotti. Hann væri því feginn að losna við lið Pep Guardiola úr keppninni.

Real Madrid Madrid hefur verið upp og niður í keppninni, vann Stuttgart, Borussia Dortmund, Atalanta og Salzburg en tapaði fyrir Lille, AC Milan og Liverpool. Liðið er með 12 stig í sextánda sætinu

„Þú veist aldrei hvað gerist. Það er eitt hins vegar á hreinu. Við verðum að vinna okkar síðasta leik og hjá þessum klúbbi er það ekki ný staða,“ sagði Ancelotti.

City menn þurfa aftur á móti að vinna sinn leik og treysta líka á önnur úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×