Menning

Katrín dustar rykið af visku sinni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Katrín áritar eintak af glæpasögu sinni Reykjavík sem hún skrifaði með Ragnari Jónassyni, í útgáfuteiti í Iðnó þegar bókin kom út fyrir jól árið 2022.
Katrín áritar eintak af glæpasögu sinni Reykjavík sem hún skrifaði með Ragnari Jónassyni, í útgáfuteiti í Iðnó þegar bókin kom út fyrir jól árið 2022. Vísir/Hulda Margrét

Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra Íslands býður áhugasömum að kynnast sögu íslenskra glæpasagna frá upphafi. Hún heldur námskeið um helstu kenningar um glæpasögur og vinsældir þeirra á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands og segist hlakka til að dusta rykið af visku sinni frá því áður en hún varð stjórnmálamaður.

„Fyrir lífið sem stjórnmálamaður þá var ég svona auðvitað að stúdera íslenskar bókmenntir og skrifaði meðal annars BA og mastersritgerð um glæpasögur og birti töluvert af fræðigreinum um þessa hefð sem á þessum tíma var bara rétt svo að fara af stað,“ segir Katrín í samtali við Vísi.

Á vefsíðu námskeiðsins kemur fram að námskeiðið verði kennt eina kvöldstund þrjár vikur í röð og er fyrsta námskeiðið þann 5. mars og það síðasta svo þann 19. mars. Fram kemur að Katrín muni þar fjalla um glæpasögur fram á níunda áratug 20. aldar, kynna helstu höfunda og sögur og fara svo yfir þróun og aðdragandi íslenska glæpavorsins sem talið er að hefjist í kringum aldamótin. Þá fer Katrín loks yfir nýja íslenska höfunda, séreinkenni þeirra og þróun á alþjóðavettvangi.

Af ótrúlega mörgu að taka

„Staðan í dag er auðvitað bara fyrst og fremst sú að það er alveg ótrúleg fjölbreytni þegar það kemur að íslenskum glæpasögum. Það er ekki hægt að segja að íslenskir glæpasagnahöfundar séu einsleit tegund og mér finnst svo gaman að því að fólk heldur áfram að skrifa,“ segir Katrín.

„Í gamla daga var þetta þannig að fólk skrifaði eina glæpasögu, jafnvel undir dulnefni og svo ekki söguna meir. Núna er mættur fram á sviðið stór hópur sem skrifar ár eftir ár og þetta er orðið í raun og veru mikið verk að greina þetta og greina sérkenni hvers höfundar.“

Katrín segist hafa verið sérlega heppin að hafa skrifað sína BA-ritgerð um sögu íslenskra glæpasagna árið 1999. Hún hafi verið rétt kona á réttum stað enda hafi glæpasagnasmið svo sprungið út um aldamótin. Katrín hefur auk þess birt margar fræðigreinar um efnið og svo má ekki gleyma því að hún hefur sjálf skrifað glæpasögu, glæpasöguna Reykjavík með Ragnari Jónassyni sem kom út árið 2022.

En hefur Katrín fylgst nægilega vel með því sem hefur verið að gerast undanfarin ár á meðan hún hefur verið forsætisráðherra?

„Ég hef auðvitað ekki verið að birta fræðigreinar undanfarin ár en ég hef reynt að fylgjast með og lesa það sem kemur út. Það hefur enda verið gríðarleg gróska í glæpasagnaútgáfu á Íslandi og nú ætla ég bara að dusta rykið af minni gömlu visku og fara að gera það sem mér finnst náttúrulega skemmtilegast, sem er að kenna.“

Katrín segir það standa upp úr að tala um bókmenntir. Það finnst henni skemmtilegast. „Nú hef ég mánuð til að undirbúa mig og hlakka til. Mér skilst að skráning hafi farið frekar vel af stað og ég vona bara að það verði full mæting.“

Katrín hefur verið dugleg að upplýsa fylgjendur sína á Instagram um það hvað hún hefur verið að lesa.

Ógnvænlegra að gefa út eigið verk en að stýra ríkisstjórn

Það klikkar ekki að þegar Katrín fer í viðtöl þessi dægrin er hún spurð að því hvort hún sé mögulega að skrifa sína eigin skáldsögu. Í þetta skiptið segist Katrín vera að skrifa ýmislegt. Hvað kemur út sé svo önnur spurning.

„Það eru nokkrar hugmyndir í gangi hjá mér, ég kannski segi sem minnst um það. Ég veit ekki alveg hvað kemur út en ég hef notað tímann til þess að skrifa. Mér finnst það mjög skemmtilegt en um leið dáist ég alltaf að rithöfundum sem þora að gefa út það sem þeir skrifa, því mér finnst það miklu ógnvænlegra en að sitja á fundi eða að stýra ríkisstjórn. Aðdáun mín á þessu fólki sem er að skrifa er ómæld.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.