Körfubolti

Hætti 14 ára en á nú leikjametið: „Fannst þær allar mikið stærri og sterkari“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðbjörg Sverrisdóttir fór yfir litríkan feril sinn í viðtali sem nú má sjá í heild sinni á Vísi.
Guðbjörg Sverrisdóttir fór yfir litríkan feril sinn í viðtali sem nú má sjá í heild sinni á Vísi. Stöð 2 Sport

Guðbjörg Sverrisdóttir varð í vikunni leikjahæsti leikmaður efstu deildar kvenna í körfubolta. Hún settist niður með Herði Unnsteinssyni og tæpti á því helsta á átján ára ferli.

Guðbjörg bætti leikjamet Sigrúnar Sjafnar Ámundadóttur þegar hún spilaði með Val gegn Aþenu í Bónus-deildinni í vikunni. 

Hún hafði sjálf ekkert verið að telja leikina þegar hún komst að því að hún hefði jafnað leikjametið í leik við Hauka á dögunum.

„Ég vissi ekki af þessu fyrr en eftir Haukaleikinn. Þá var ég að skrolla á Facebook og tók eftir því hjá Stattnördunum að þetta hefði verið að gerast. Það var kannski eini ljósi punkturinn hjá mér það kvöld. Þetta er mjög gaman,“ segir Guðbjörg sem er hvergi nærri hætt að spila:

„Ég er enn bara 25 ára í anda svo ég hef ekki tekið eftir því hvað þetta hefur verið langur tími,“ segir Guðbjörg.

Hún hóf meistaraflokksferilinn tímabilið 2006-07 og varð þá Íslandsmeistari með systur sinni, Helenu, undir handleiðslu Ágústs Björgvinssonar.

„Ég byrjaði að æfa með þeim haustið 2006, ekki orðin 14 ára. Mér fannst þær allar svo mikið stærri og sterkari en ég að ég gafst upp. En ég held að það hafi ekki liðið tveir tímar þar til ég var farin að sjá eftir því, svo ég talaði við Gústa og fékk að koma aftur um áramótin,“ segir Guðbjörg létt.

Skemmtilegt viðtal við Guðbjörgu má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Orðin sú leikjahæsta í efstu deild



Fleiri fréttir

Sjá meira


×