Körfubolti

Bragi heim frá Banda­ríkjunum

Sindri Sverrisson skrifar
Bragi Guðmundsson er snúinn aftur til Grindavíkur.
Bragi Guðmundsson er snúinn aftur til Grindavíkur. vísir/Hulda Margrét

Körfuknattleiksliði Grindavíkur hefur borist óvæntur liðsstyrkur því Bragi Guðmundsson er kominn heim frá Bandaríkjunum og mun klára tímabilið með liðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu Grindvíkinga þar sem segir að Bragi, sem síðustu tvö tímabil hefur leikið í bandaríska háskólakörfuboltanum, hafi ákveðið að taka sér frí frá námsbókunum og taka slaginn með Grindavík út leiktíðina.

Bragi lék síðast hér á landi tímabilið 2022-23 og var þá með að meðaltali 10 stig í leik fyrir Grindvíkinga í deildinni, tók 4 fráköst og gaf 1,8 stoðsendingar.

„Það eru auðvitað frábærar fréttir að fá Braga heim. Hann hefur vaxið mikið sem leikmaður úti í Bandaríkjunum og mun bæta vel í vopnabúrið okkar,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindvíkinga.

„Að fá hávaxinn og snöggan leikmann, sem getur líka skotið, inn í hópinn eykur breiddina hjá okkur töluvert og gefur mér fleiri tromp á hendi til að spila úr,“ sagði Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×