United lenti í kröppum dansi gegn Southampton og var 0-1 undir þegar átta mínútur voru til leiksloka. En þá jafnaði Diallo. Hann bætti svo tveimur mörkum við og tryggði Rauðu djöflunum sigurinn.
„Þú verður að trúa í fótbolta,“ sagði Diallo eftir leikinn. Síðustu dagar hafa verið eftirminnilegir fyrir þennan 22 ára leikmann en hann er nýbúinn að skrifa undir fimm og hálfs árs samning við United.
„Þetta er kannski ein besta vika lífs míns. Við trúðum allt til enda og erum ánægðir að hafa unnið leikinn. Við gerðum jafntefli við Liverpool og Arsenal svo sjálfstraustið var til staðar.“
Diallo hefur skorað sex mörk og lagt upp sex í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Þá hefur hann skorað tvö mörk í Evrópudeildinni.
United er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Brighton á sunnudaginn.