Fótbolti

Arnar rak Sölva í beinni: „Vil ekki sjá hann hérna“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Gunnlaugsson, nýr landsliðsþjálfari, mun ekki starfa áfram með Sölva Geir Ottesen sem að líkindum tekur við af Arnari sem aðalþjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, nýr landsliðsþjálfari, mun ekki starfa áfram með Sölva Geir Ottesen sem að líkindum tekur við af Arnari sem aðalþjálfari Víkings. Vísir/Anton

Nýr landsliðsþjálfari Íslands, Arnar Gunnlaugsson, mun ekki halda Sölva Geir Ottesen í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Hann raunar rak Sölva úr teyminu í beinni útsendingu.

Arnar sat fyrir svörum á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands í Laugardal vegna nýja starfsins og var spurður út í þjálfarateymið.

Hann kveðst þegar hafa átt fund með Davíð Snorra Jónassyni, aðstoðarþjálfara Åge Hareide, sem verður áfram í því starfi. Arnar vill raunar halda öllu þjálfarateymi Hareide að einum manni undanskildum.

Sölvi Geir Ottesen hefur verið aðstoðarþjálfari Arnars í Víkinni undanfarin misseri.Vísir/Pawel

Sölvi Geir Ottesen verður að líkindum kynntur sem arftaki Arnars í starfi þjálfara hjá Víkingi fyrir vikulok og segir Arnar gefa auga leið að Sölvi haldi ekki áfram í starfi hjá sambandinu.

Sölvi Geir hefur starfað sem sértækur þjálfari í föstum leikatriðum hjá landsliðinu síðustu misseri samhliða starfi sínu sem aðstoðarþjálfari Arnars hjá Víkingi.

„Ég vil halda eiginlega bara öllum. Það gefur auga leið, ég vona að ég sé ekki að gefa upp einhver hernaðarleyndamál, að Sölvi verður væntanlega næsti þjálfari Víkings. Þess vegna vil ég ekki sjá hann hérna í Laugardalnum. Það er ekki hægt og ég held að allir skilji það,“ sagði Arnar á fundinum.

Hann var þá spurður hvort hann hyggðist bæta fleirum við teymið og hvort það væri alfarið staðfest að Sölvi yrði ekki áfram.

„Ég er opinberlega búinn að reka hann á þessum fundi. Hann verður ekki áfram. Sorry Sölvi. Ég held að við þurfum ekki að bæta við en við þurfum að finna mann í það starf,“ segir Arnar.

Fundurinn var í beinni útsendingu á Vísi hér og má sjá þar í heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×