Hinn 31 árs gamli Karius hefur komið víða við á ferli sínum en hefur ekki átt upp á pallborðið síðan hann gerðist sekur um slæm mistök í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þegar hann var á mála hjá Liverpool.
Frá 2022 til 2024 var hann á mála hjá Newcastle United í Englandi en var aldrei í baráttunni um að vera aðalmarkvörður liðsins. Hann stóð þó í rammanum þegar Newcastle tapaði gegn Man United í úrslitum enska deildarbikarsins í byrjun árs 2023.
Þjóðverjinn er nú mættur til Schalke 04 þar sem hann mun berjast um stöðu aðalmarkvarðar við Justin Heekeren. Félagið féll úr efstu deild Þýskalands árið 2023 og er sem stendur í 13. sæti þýsku B-deildarinnar.