Íslenski boltinn

Kári segir Atla geta orðið „unplayable“

Sindri Sverrisson skrifar
Atli Þór Jónasson tekur í spaðann á Kára Árnasyni sem er nú enginn trítill.
Atli Þór Jónasson tekur í spaðann á Kára Árnasyni sem er nú enginn trítill. Víkingur

Víkingar hafa nú greint frá kaupum sínum á framherjanum Atla Þór Jónassyni sem félagið fær frá HK. Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, segir Atla geta orðið óstöðvandi í Bestu deildinni.

Atli var samningsbundinn HK og því þurfa Víkingar að greiða Kópavogsfélaginu fyrir þennan stóra og stæðilega framherja, en kaupverðið er ekki gefið upp.

Atli er uppalinn hjá Hamri í Hveragerði en hefur leikið í Bestu deildinni síðustu tvö ár með HK. Hann skoraði sjö mörk í 24 leikjum fyrir HK í fyrra og setti svo fernu gegn Víkingum í Bose-mótinu undir lok síðasta árs.

Ljóst er að framherjinn hefur hrifið Kára sem segir á heimasíðu Víkinga:

„Atli er gríðarlega spennandi leikmaður með mjög sérstaka kosti og á mikið inni að okkar mati. Hann er enn ungur að árum og afsakið slettuna en Atli hefur alla burði í að verða „unplayable“ vegna styrks síns og hraða. Þrátt fyrir mikla hæð er hann mikill íþróttamaður og ég er gríðarlega spenntur að fá hann í hópinn. Við væntum mikils af honum hér í Víkinni á næstu árum.“

Nóg er um að vera hjá Víkingum sem mæta KR í Reykjavíkurmótinu í kvöld og eiga fyrir höndum fleiri leiki þar áður en þeir mæta gamla liðinu hans Atla, HK, í fyrsta leik í Lengjubikarnum 6. febrúar. Svo styttist í leikina stóru við Panathinaikos, sem áætlað er að fari fram 12. og 19. febrúar, í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu. Fyrsti leikur Víkings í Bestu deildinni á komandi leiktíð er svo við ÍBV 7. apríl.


Tengdar fréttir

Atli á leið til Víkings

Framherjinn hávaxni, Atli Þór Jónasson, er genginn í raðir Víkings frá HK. Frá þessu greinir Hjörvar Hafliðason á X.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×