Framtíð enska framherjans er nú í mikilli óvissu eftir að þjálfari Manchester United setti hann í frystikistuna.
Rashford hefur ekki komið við sögu í síðustu sex leikjum liðsins en hann spilaði síðast í United búningnum 12. desember á síðasta ári eða fyrir einum mánuði síðan.
Það lítur allt út fyrir að hann sé á förum frá félaginu, líklegast á láni. Svo gæti einnig farið að United selji Rashford komi rétta tilboðið.
Rashford kom inn í aðllið Manchester United á 2015-16 tímabilinu og skoraði þá átta mörk í átján leikjum i öllum keppnum.
Rashford hefur alls skorað 138 mörk í 426 leikjum fyrir Manchester United í öllum keppnum.
Það væri sárt fyrir marga stuðningsmenn United að sjá á eftir þessum leikmanni sem flestir héldu að yrði stórstjarna liðsins í mörg ár í viðbót.
Til að ýta undir nostalgíuna telur fólkið á Give Me Sport vefnum sig hafa fundið ellefu ára gamlan Rashford á götumynd Google.
Þar má sjá hann, að þeirra mati, ellefu ára gamlan á leiðinni á æfingu hjá Manchester United í fullum United skrúða.
Hvort satt sé efast reyndar sumir um en götumyndin er frá árinu 2009.