Enski boltinn

Stjóri Liverpool neitaði að tjá sig um Kvaradona orð­róminn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Khvicha Kvaratskhelia gæti verið á leið frá Napoli og hefur ítrekað verið orðaður við Liverpool.
Khvicha Kvaratskhelia gæti verið á leið frá Napoli og hefur ítrekað verið orðaður við Liverpool. Getty/Alex Livesey/Mondadori Portfolio

Georgíski knattspyrnumaðurinn Khvicha Kvaratskhelia hefur verið sterklega orðaður við Liverpool að undanförnu en knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildeildarfélagsins vill ekki blanda sér í þá umræðu.

Það er búist við því að Napoli selji Kvaratskhelia í þessum mánuði því lítið gengur hjá félaginu að framlengja við hann samninginn sem rennur út sumarið 2027.

Napoli verðmetur þennan 23 ára leikmann á áttatíu milljónir evra en hingað til hefur franska félagið Paris Saint-Germain verið fremst í kapphlaupinu.

Arne Slot neitaði að tjá sig um Kvaradona orðróminn á blaðamannafundi í dag en sá georgíski fékk það gælunafn eftir frábæra frammistöðu með liði Diego Maradona.

„Það sem ég sé í þessu er að það er janúarmánuður. Ég sagði það eftir West Ham leikinn að þið eigið ekki valda mér vonbrigðum með því að henda fram þessum nöfnum á leikmönnum sem eru orðaðir við Liverpool,“ sagði Slot. ESPN segir frá.

„Það er bara slíkt sem er í gangi núna. Í níu af hverjum tíu skiptum og í 99 skiptum af hundrað, þá kemur það í ljós, þegar glugginn lokar að ekkert var til í þessum orðrómum,“ sagði Slot.

Kvaratskhelia er með fimm mörk og þrjár stoðsendingar í sautján deildarleikjum í Seríu A á þessu tímabili. Í fyrra var hann með ellefu mörk og átta stoðsendingar og besta tímabilið hans var 2022-23 þegar hann var með tólf mörk og þrettán stoðsendingar þegar Napoli varð ítalskur meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×