Fótbolti

Damir ekki lengi að opna marka­reikninginn í Asíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Damir Muminovic fagnar með stuðningsmönnum Breiðabliks eftir að Íslandsmeistaratitillinn var tryggður.
Damir Muminovic fagnar með stuðningsmönnum Breiðabliks eftir að Íslandsmeistaratitillinn var tryggður. VÍSIR/VILHELM

Damir Muminovic fer vel af stað með sínu nýja félagi DPMM, Duli Pengiran Muda Mahkota, í Brúnei. Miðvörðurinn skoraði eftir aðeins sex mínútna leik í sínum fyrsta leik.

Damir var einn af lykilmönnum Breiðabliks þegar liðið varð Íslandsmeistari karla í fótbolta í haust. Hann ákvað í kjölfarið að fara á vit ævintýranna og semja við DPMM sem staðsett er í Brúnei en spilar í efstu deild Singapúr.

Deildin hefur verið í vetrarfríi undanfarnar vikur en félögin eru nú í óðaönn að undirbúa sig fyrir seinni hluta deildarinnar.

DPMM, sem er í 6. sæti deildarinnar áður en síðari hluti tímabilsins hefst, mætti liðinu Kuching City frá Malasíu á laugardaginn var og skoraði Damir mark sinna manna í 1-1 jafntefli.

Vika er í að deildin fari af stað á nýjan leik en DPMM mætir toppliði Lion City Sailors í fyrsta leik. Það verður áhugavert að sjá hvort miðvörðurinn knái verði áfram á markaskónum en á Íslandi skoraði hann 14 mörk í 267 leikjum í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×