Í gær varaði Veðurstofan við því að vatn væri tekið að flæða yfir bakka Hvítár við Brúnastaði vegna klakastíflu sem verið hefur að myndast undanfarna daga. Lögreglan á Suðurlandi fór nú á tólfta tímanum á staðinn til þess að kanna aðstæður.
„Við settum dróna á loft til að skoða þetta og bera saman við stöðuna í gærkvöldi,“ sagði Þorsteinn Matthías Kristinsson, aðalvarðstjóri, þegar fréttastofa náði af honum tali við árbakkann. Flóðið er nú talsvert meira en í gær.
„Það er talsvert meira vatnsmagn sem fer fram hjá stíflunni við svokallaða flóðgátt við Hvítá, sem rennur svo yfir í Flóaáveitu, eða rennur fram hjá þessari stíflu og aðeins út á tún, og aftur út í Flóáveituna,“ sagði Þorsteinn beðinn um að lýsa aðstæðum.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands benti á að vatnsborð hafi hækkaði um einn og hálfan metra á um tuttugu mínútum í gær og því ljóst að vatnið hafi tekið að flæða nokkuð snögglega.
Fólk er beðið um að sýna aðgát á svæðinu en Veðurstofan, almannavarnir og lögregla fylgjast náið með þróuninni.
„Þetta hefur í gegnum tíðina eitthvað flætt um hérna en ég þori ekki að spá til um það hvernig þetta þróast. Ef vatnið fer að flæmast hér um tún og annað slíkt, og ræsi og brýr taka ekki við þessu, veit maður ekki hvað gerist,“ segir Þorsteinn.