Enski boltinn

„Ekki auð­velt að spila fyrir stórt fé­lag eins og Arsenal“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það var augljóslega hart barist þegar Arsenal lagði Brentford í dag.
Það var augljóslega hart barist þegar Arsenal lagði Brentford í dag. Vísir/Getty

Brasilíski framherjinn Gabriel Jesus er heldur betur búinn að finna skotskóna því hann skoraði sjötta mark sitt í síðustu fjórum leikjum þegar Arsenal vann 3-1 sigur á Brentford í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Mér fannst liðið gera frábærlega í dag,“ sagði Jesus í viðtali við TNT eftir leikinn í dag en með sigrinum lyftir Arsenal sér upp í 2. sætið á nýjan leik. 

„Að koma hingað og spila eins og við gerðum er frábært. Að sjálfsögðu er mikilvægast að ná í þrjú stig sem við gerðum en á eftir því er mikilvægt að bregðast við eins og við gerðum,“ bætti Jesus við en Arsenal lenti undir eftir aðeins þrettán mínútna leik en átti góða endurkomu.

Jesus sagði alla innan félagsins leggja hart að sér en hann hefur nú skorað sex mörk í síðustu fjórum leikjum sínum.

„Ég held áfram að leggja hart að mér og allir innan félagsins sjá hvernig ég vinn á hverjum degi. Ekki bara ég heldur allir. Ég gefst ekki upp og það er ekki auðvelt að spila fyrir stórt félag eins og Arsenal.“

„Nú get ég skorað og ég er mjög hamingjusamur - mig langar að halda áfram að skora til að hjálpa liðinu.“

Hann sagði liðið vera með í titilbaráttunni en Arsenal er nú sex stigum á eftir Liverpool sem á leik til góða.

„Að sjáfsögðu voru síðustu tvö tímabil frábær. Við unnum ekki en við vorum að berjast,“ en Arsenal hefur endað í 2. sæti síðustu tvö tímabil í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×