Enski boltinn

Fjöl­margir leik­menn orðaðir við Arsenal

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mikel Arteta vill styrkja lið Arsenal fyrir seinni hluta tímabilsins á Englandi.
Mikel Arteta vill styrkja lið Arsenal fyrir seinni hluta tímabilsins á Englandi. Vísir/Getty

Arsenal er níu stigum á eftir toppliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Nú þegar félagaskiptaglugginn er opinn á Englandi eru fjölmargir leikmenn orðaðir við Skytturnar.

Arsenal er með í titilbaráttunni en er níu stigum á eftir Liverpool sem situr öruggt á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Arsenal leikur í kvöld gegn Brentford í eina leik dagsins í úrvalsdeildinni og þar gæti Hákon Rafn Valdimarsson tekið sér stöðu í marki Brentford en hann kom inn á í leik liðsins gegn Brighton eftir að markvörðurinn Mark Flekken meiddist.

Arsenal varð fyrir áfalli á dögunum þegar enski landsliðsmaðurinn Bukayo Saka meiddist og verður að teljast líklegt að liðið reyni að styrkja hópinn en félagaskiptaglugginn á Englandi opnaði á miðnætti. Saka mun líklega ekki spila með Arsenal fyrr en í mars.

Fjölmargir leikmenn eru orðaðir við Arsenal í ensku blöðunum og eru þeir Nico Williams leikmaður Athletic Bilbao, Leroy Sane hjá Bayern Munchen, Arda Guler leikmaður Real Madrid og Florian Wirtz hjá Bayer Leverkusen allir nefndir sem möguleg skotmörk Mikel Arteta knattspyrnustjóra. 

Þá eru framherjarnir Alexander Isak, Benjamin Sesko, Matheus Cunha og Bryan Mbuemo einnig sagðir vera á lista Arsenal sem virðast ætla að styrkja framlínu sína svo um munar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×