Enski boltinn

Antonio út­skrifaður eftir rúm­lega þriggja vikna spítaladvöl

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Michail Antonio lenti í slæmu bílslysi fyrir rúmum þremur vikum.
Michail Antonio lenti í slæmu bílslysi fyrir rúmum þremur vikum. West Ham United FC/West Ham United FC via Getty Images

Michail Antonio, framherji West Ham í ensku úrvalsdeildinni, er laus af spítala eftir rúma þriggja vikna dvöl í kjölfar alvarlegs bílslyss.

Antonio lenti í hörðum árekstri við annan bíl þann 7. desember síðastliðinn, fótbrotnaði og gekkst undir aðgerð daginn eftir. Hann hefur verið að jafna sig undir eftirliti lækna síðan þá.

Liðsfélagar hans hjá West Ham hituðu upp í treyjum merktum með hans nafni fyrir leik tveimur dögum síðar gegn Wolves. Upphitunartreyjurnar og treyjurnar sem leikmenn klæddust á meðan leik stóð voru svo seldar til góðgerðamála.

Alls söfnuðust tæplega sextíu þúsund pund, sem gera um tíu og hálfa milljón íslenskra króna.

Liðsfélagar Antonio sýndu honum stuðning.Justin Setterfield/Getty Images

Antonio gekk til liðs við West Ham árið 2015 og er markahæsti leikmaður í sögu félagsins í ensku úrvalsdeildinni með 68 mörk. Alls hefur hann skorað 83 mörk í 322 leikjum í öllum keppnum. Hann mun að öllum líkindum ekki leika fótbolta næsta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×