Enski boltinn

Rashford laus úr út­legð

Sindri Sverrisson skrifar
Marcus Rashford hefur verið utan hóps hjá Manchester United í síðustu leikjum.
Marcus Rashford hefur verið utan hóps hjá Manchester United í síðustu leikjum. Getty/Stephen White

Enski fótboltamaðurinn Marcus Rashford er kominn inn í leikmannahóp Manchester United á nýjan leik eftir að hafa verið hafður utan hóps í síðustu fjórum leikjum.

United tekst á við Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og veitir ekki af sigri eftir tvö töp í röð í deildinni, gegn Wolves og Bournemouth, auk tapsins gegn Tottenham í deildabikarnum.

Rúben Amorim tók óvænt þá ákvörðun að kippa Rashford og Alejandro Garnacho út úr leikmannahópi United fyrir grannaslaginn við Manchester City 15. desember, og hefur Rashford því verið utan hóps í fjórum leikjum. Garnacho fékk hins vegar strax aftur sæti í hópnum og hefur komið inn á sem varamaður í síðustu þremur leikjum.

Engin meiðsli hafa verið að plaga Rashford sem síðast spilaði deildarleik 7. desember og hefur ekki verið í byrjunarliði í deildarleik síðan hann skoraði tvennu í 4-0 sigrinum gegn Everton 1. desember. Hann var einnig í byrjunarliðinu og skoraði mark United í 1-1 jafntefli við Ipswich í fyrsta leiknum undir stjórn Amorim.

Portúgalski stjórinn hefur ekki viljað útskýra fjarveru Rashford nema með því að um taktíska ákvörðun hafi verið að ræða. Rashford svaraði fyrir sig í viðtali eftir City-leikinn og sagðist tilbúinn í nýja áskorun.

Nú er ljóst að hann gæti spilað í kvöld, í síðasta leik United á þessu ári og jafnframt síðasta leiknum áður en félagaskiptaglugginn opnast í janúar. Hann er þó á varamannabekk United.

United er án fyrirliðans Bruno Fernandes í kvöld vegna leikbanns og annar sóknarsinnaður leikmaður, Mason Mount, á við meiðsli að stríða líkt og þeir Luke Shaw og Victor Lindelöf. Manuel Ugarte er einnig í banni í kvöld.

Leikur Manchester United og Newcastle hefst klukkan 20 og er í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×