Innlent

Holta­vörðu­heiði og Súða­víkur­hlíð lokað

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Svona er útsýnið úr lögreglubíl í Víðidal.
Svona er útsýnið úr lögreglubíl í Víðidal. Lögreglan á Norðurlandi vestra

Súðavíkurhlíð verður lokað á ný í kvöld, ekki seinna en klukkan 21:30, vegna snjóflóðahættu. Athugað verður með opnun í fyrramálið. 

Á vef Vegagerðarinnar er vakin athygli á versnandi veðurspá fyrir Vestfirði í kvöld. Búast megi við erfiðum akstursskilyrðum. Tekin hafi verið ákvörðun um að loka Súðavíkurhlíð fyrir nóttina vegna snjóflóðahættu en á Facebook síðu lögreglunnar á Vestfjörðum segir að athugað verði með opnun vegarins á ný snemma í fyrramálið. 

Þá séu líkur á versnandi akstursskilyrðum einnig á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku í kvöld. Holtavörðuheiði sé komin á óvissustig og gæti lokað með stuttum fyrirvara. Ferðalangar eru hvattir til að flýta ferð eða bíða til morguns en þá sé veðurspá skaplegri.

Uppfært 18:40: Lögreglan á Norðurlandi vestra segir frá því á Facebook að búið sé að loka Holtavörðuheiði. Ökumenn hafi verið og séu í vandræðum á Vatnsskarði, Siglufjarðarvegi og í Víðidal í Húnaþingi vestra. Björgunarsveitir hafi verið kallaðar út í þessi verkefni. 

Ítrekað er við ökumenn að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×