Dagný veitti viðtal á heimasíðu West Ham sem lesa má í heild sinni hér.
Hún eignaðist sitt annað barn í febrúar, soninn Andreas en fyrir átti hún son sem heitir Brynjar og er sex ára.
Í september sneri hún aftur á knattspyrnuvöllinn eftir barnsburð, í leik gegn Manchester United, en hún hafði þá ekki spilað í sextán mánuði. Fyrsta mark tímabilsins skoraði hún svo í næstsíðasta leiknum fyrir jólafrí, 3-0 bikarsigri gegn Tottenham.

Hún fór þannig í frí á mjög góðum nótum en West Ham, sem situr í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, á ekki leik aftur fyrr en 12. janúar. Það ætti því að gefast nægur tími til að njóta yfir jólin, sem Dagný hefur alltaf elskað.
„Alveg frá því ég var lítil hef ég algjörlega elskað jólin, og nú þegar ég á börn er ég að upplifa það allt aftur. Elsti sonur minn er sex ára, sem er fullkominn aldur fyrir jólin, og stundum líður mér eins og ég sé orðin tíu ára aftur. Ég er að upplifa alla spennuna aftur í gegnum hann, það er svo gaman að sjá bros á andlitum barnanna.“
Dagný sagði lesendum líka frá öllum helstu íslensku jólahefðunum; sveinunum þrettán sem gefa í skóinn, leitinni að möndlu í grautnum, árlega skötuboðinu sem hún fer í á Þorláksmessu og sérstaka tímasetningu okkar Íslendinga sem höldum jólin á aðfangadegi jóla frekar en á jóladag eins og tíðkast í Bretlandi og víðar.
Í jólagjöf óskaði hún eftir lóðasetti svo hún geti æft heima yfir hátíðarnar, en það myndi ekki toppa bestu gjöf sem hún hefur nokkurn tímann fengið:
„Það var þegar ég var tíu eða ellefu ára gömul og fékk íslenska landsliðsbúninginn í fyrsta sinn,“ sagði Dagný sem ætlar að leyfa eiginmanni sínum, Ómari Páli Sigurbjartssyni, að sjá um eldamennskuna í kvöld.
„Ég er ekki mikið fyrir að elda svo maðurinn sér um matinn og ég um meðlætið.“