Barry hefur verið á láni hjá Stockport síðan sumarið 2023, í eitt og hálft tímabil. Á þeim tíma hefur hann verið lykilmaður og skorað 24 mörk í 44 leikjum, en mun spila sinn síðasta leik fyrir félagið á nýársdag. Þetta tilkynnti Stockport á vefsíðu sinni.
Talið er að Aston Villa ætli að selja leikmanninn eða lána hann til liðs í Championship deildinni. Stockport leikur í deildinni fyrir neðan, League One.
Markakóngur Bestu deildarinnar, Benóný Breki Andrésson, er nýgenginn til liðs við félagið. Hann hugsar sér væntanlega gott til glóðarinnar með brotthvarfi Barry og gæti fljótlega fengið sínar fyrstu mínútur inni á vellinum.
„Við megum ekki gleyma að þetta er bara ungur strákur sem er að koma í nýtt land. Við verðum því að sýna honum þolinmæði en ef við höldum öll rétt á spilunum þá erum við sannfærð um að þetta skili okkur góðum árangri,“ sagði Simon Wilson, formaður félagsins, þegar Benóny skrifaði undir fyrr í mánuðinum.