Fótbolti

„Við vorum taugaó­styrkir“

Siggeir Ævarsson skrifar
Ruben Amorim þarf að finna svör við ýmsum spurningum
Ruben Amorim þarf að finna svör við ýmsum spurningum vísir/Getty

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði að leikmenn hans hefðu verið taugaóstyrkir þegar liðið tapaði 0-3 gegn Bournemouth í dag á heimavelli.

Þetta var annað skiptið í röð sem United tapar 0-3 gegn Bournemouth á heimavelli sem þýðir að liðið verður í neðri helmingi deildarinnar yfir jólin, í 13. sæti, í fyrsta sinn síðan 1989. United lenti undir í upphafi leiks með marki úr föstu leikatriði en þetta var sjöunda markið í sex leikjum sem liðið fær úr sig úr slíkri stöðu.

„Þetta var erfiður leikur fyrir okkur. Við fáum aftur á okkur mark úr föstu leikatriði og við vorum taugaóstyrkir í upphafi leiks. Áhorfendur líka. Ég fann fyrir því, það er mikið stress í gangi, ekki bara hjá leikmönnum heldur aðdáendum líka.“

„Ég fann fyrir þessu frá fyrstu mínútu. Það er mikill kvíði í gangi, sem er eðlilegt í ljósi stöðunnar og það veldur öllum vonbrigðum. Þetta var erfitt en við þurfum að horfast í augu við úrslitin og einbeita okkur að næsta leik.“

Leikmenn United fengu auka yfirferð um hvernig á að verjast föstum leikatriðum fyrir leik frá Carlos Fernandes aðstoðarþjálfara en það virtist ekki skila miklum árangri. Amorim var spurður hvort það kæmi til greina að skipta Fernandes út.

„Ég ber ábyrgð á að þjálfa leikmennina, ekki Carlos, þetta er alfarið á mína ábyrgð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×