Íslenski boltinn

Drottning Lengju­deildarinnar ætlar að vera með Fram í Bestu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Murielle Tiernan með foreldrum sínum þegar þau komu að horfa á hana spila í sumar.
Murielle Tiernan með foreldrum sínum þegar þau komu að horfa á hana spila í sumar. @mtiernan13

Framarar segjast hafa fengið jólagjöfina sína í ár þegar bandaríski framherjinn Murielle Tiernan skrifaði undir nýjan samning við félagið.

Tiernan hafði spilað í Lengjudeildinni með Tindastól og hjálpað liðinu upp í Bestu deildina. Nú endurtók hún leikinn með Fram.

Nú verður Tiernan með Fram á fyrsta tímabili félagsins í efstu deild síðan 1988 eða i 37 ár.

Það sem meira er að Fram ákvað að tilkynna samninginn á afmælisdegi Tiernan sem heldur upp á þrítugsafmælið sitt í dag. Samingur hennar er út næsta tímabil.

Mur var markahæsti leikmaður Fram í Lengjudeildinni í sumar þar sem hún skoraði 13 mörk í 18 leikjum auk þess sem hún skoraði önnur sex mörk í sjö leikjum í Lengjubikar og Mjólkurbikar.

Tiernan hefur alls skorað 77 mörk í 69 leikjum í Lengjudeildinni á Íslandu en hún hefur þrisvar sinnum farið upp úr deildinni eða 2020, 2022 og 2024. Hún spilaði 37 leiki með Tindastól í Bestu deildinni og skoraði 10 mörk í þeim leikjum.

„Hennar ferill á Íslandi hefur auðvitað verið algjörlega ótrúlegur og það eru algjör forréttindi fyrir félagið að njóta krafta hennar áfram,“ segir í frétt á miðlum Fram og þar bæta menn við.

„Fyrir utan að dæla inn mörkum og stoðsendingum þá er Mur ótrúlega jákvæður leiðtogi innan og utan vallar. Hún gerir alla leikmenn liðsins betri, er hvetjandi og kröfuhörð og yngri leikmenn liðsins læra gríðarlega mikið af því að æfa og spila með henni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×