Körfubolti

„Fyrir­gefðu að ég var ekki pabbinn sem þú vildir að ég værir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rodman-feðginin eftir leik í bandarísku NWSL-deildinni fyrir þremur árum. Trinity hefur leikið með Washington Spirit allan sinn feril í NWSL.
Rodman-feðginin eftir leik í bandarísku NWSL-deildinni fyrir þremur árum. Trinity hefur leikið með Washington Spirit allan sinn feril í NWSL. getty/Tony Quinn

Körfuboltastjarnan óútreiknanlega, Dennis Rodman, hefur brugðist við ummælum dóttur hans, fótboltakonunnar Trinity, um að hann sé ekki faðir hennar, nema kannski blóðfaðir.

Trinity, sem hefur bæði orðið heims- og Ólympíumeistari með bandaríska fótboltalandsliðinu, ræddi um Dennis í hlaðvarpinu Call Her Daddy á dögunum. Þar sagðist Trinity ekki vera í neinu sambandi við Dennis og liti varla á hann sem pabba sinn.

„Við reyndum að búa með honum en það var partí allan sólarhringinn og hann kom með alls konar stelpur heim. Hann elskar sviðsljósið, myndavélarnar, mæta með börnin sín upp á svið og sýna þau. Ég grét. Enginn veit hvað er í gangi. Ég er búin að missa alla von að fá hann einhvern tímann til baka. Hann er ekki pabbi. Kannski blóðpabbi minn en ekkert annað.“

Í kjölfar viðtalsins við Trinity birti Dennis færslu á Instagram þar sem hann skrifaði til dóttur sinnar.

„Fyrirgefðu að ég var ekki pabbinn sem þú vildir að ég væri en ég reyndi samt, reyni áfram og mun aldrei hætta því,“ skrifaði Rodman í færslunni.

„Ég reyni jafnvel þegar þér er sagt sem fullorðinni manneskju að svara ekki símtölum frá mér. Ég reyni jafnvel þegar það er erfitt og þótt það taki langan tíma. Ég er alltaf hér. Og segja þér alltaf hversu stoltur ég er. Ég átti alltaf eina ósk og það var að börnin mín myndu hringja í mig og hitta mig. Vonandi fæ ég það einn daginn. Ég er hér og reyni enn. Hringdu, þú ert með númerið mitt. Þú sérð mig hringja. Ég er enn hér.“

Dennis á tvö börn með Michelle Moyer: Trinity og körfuboltamanninn DJ. Þau skildu fyrir tólf árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×