Innlent

Þessir Ís­lendingar kvöddu á árinu 2024

Fjölmargir þjóðþekktir Íslendingar kvöddu á árinu 2024 sem senn er á enda.

Atli Ísleifsson skrifar

Fjölmargir þjóðþekktir Íslendingar kvöddu á árinu 2024 sem senn er á enda.

Í hópi þeirra sem létust á árinu má meðal annars nefna fyrrverandi biskup, ein helsta baráttukona landsins fyrir kvenréttindum, ritstjóri Morgunblaðsins til fjölda ára, einn mesta jarðskjálftafræðing landsins og einn frægasta veðurfræðing þjóðarinnar.

Vísir tók saman nokkur nöfn sem Íslendingum ættu að vera kunnug, en þegar hefur birst frétt um fræga einstaklinga úti í heimi sem féllu frá á árinu.

Úr heimi stjórnmála

Bald­ur Óskars­son, fyrrverandi þingmaður, fram­kvæmda­stjóri og kenn­ari, lést í nóvember, 83 ára að aldri. Baldur var framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins og sat sem þingmaður á Alþingi á árunum 1981 og 1982.

Egill Þór Jónsson , teymisstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lést í desember eftir harða baráttu við krabbamein. Hann varð 34 ára. Egill Þór var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá 2018 til 2022 og varaborgarfulltrúi síðastliðin tvö ár. Hann var öflugur í félagsstörfum bæði í háskólanámi og í stjórnmálum.

Guðmundur H. Garðarsson , fyrrverandi alþingismaður og hagfræðingur, lést í apríl, 95 ára að aldri. Hann var þingmaður Reykvíkinga fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1974 til 1978 og aftur 1987 til 1991. Guðmundur var formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur á árunum 1957 til 1979.

Guðrún Jónsdóttir , baráttukona fyrir kvenréttindum og stjórnmálakona, lést í janúar, 91 árs að aldri. Guðrún átti mikinn þátt í stofnun Stígamóta árið 1990, var oddviti Kvennaframboðsins og sat í borgarstjórn Reykjavíkur árin 1982 til 1986. Hún kom einnig að stofnun Kvennaathvarfs og Samtaka kvenna á vinnumarkaði.

Guðrún Jónsdóttir.

Sigríður Hrönn Elíasdóttir , fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík, lést í október, 65 ára að aldri. Sigríður Hrönn var ráðin sveitarstjóri Súðavíkur árið 1990 og gegndi starfinu þegar snjóflóðin féllu á bæinn í janúar 1995 og fjórtán fórust.

Menning og listir

Auður Haralds rithöfundur lést í janúar, 76 ára að aldri. Fyrsta skáldsaga Auðar, Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn, kom út árið 1979 og vakti mikla athygli og opnaði umræðu í samfélaginu um heimilisofbeldi og kvennakúgun. Á næstu árum komu svo meðal annars út bækurnar Læknamafían, lítil pen bók, Hlustið þér á Mozart?, Ung, há, feig og ljóshærð og svo barnabækurnar um Elías.

Björgvin Gíslason , einhver snjallasti gítarleikari landsins, lést í mars, 72 ára að aldri. Björgvin átti langan og glæsilegan feril að baki en hann hóf ungur feril sinn og átti eftir að spila með hljómsveitum á borð við Flamingo, Falcon, Zoo, Opus 4, Náttúra, Pelican, Paradís og Póker.

Gunnar J. Árnason heimspekingur í listum og fagurfræði lést í febrúar, 64 ára að aldri. Hann kenndi heimspeki lista og fagurfræði um árabil við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Eftir Gunnar liggja fræðibækur og fjöldi greina á sviði myndlistar og heimspeki. Árið 2017 kom út bók hans Ásýnd heimsins - Um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Þá var hann einn höfunda ritraðarinnar Íslensk listasaga sem Forlagið og Listasafn Íslands gáfu út árið 2011.

Halldór Bragason tónlistarmaður lést þegar eldur kom upp á heimili hans í Reykjavík í ágúst. Hann varð 67 ára. Halldór, betur þekktur sem Dóri, var meðal lykilmanna í blústónlistarsenunni, en hljómsveitin Vinir Dóra var kennd við Halldór. Dóri spilaði meðal annars með sveitum á borð við Landsliðið, The Riot, Þrælarnir, Blúsboltarnir og Big nós band.

Hauk­ur Guðlaugs­son, fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkj­unn­ar, lést í sept­em­ber, 93 ára að aldri. Haukur var söng­mála­stjóri ís­lensku þjóðkirkj­unn­ar og skóla­stjóri Tón­skóla þjóðkirkjunnar á árunum 1974 til 2001. Ennfremur stóð hann fyr­ir reglulegum org­an­ista- og kór­a­nám­skeiðum í Skál­holti um 27 ára skeið.

Haukur Halldórsson myndlistamaður lést í júlí, 87 ára að aldri. Helstu viðfangsefni hans í myndlist voru norræn, norður-evrópsk, og keltnesk goðafræði, þjóðsögur og þjóðtrú. Haukur hannaði meðal annars Heimskautsgerðið á Raufarhöfn og styttuna af Þór og Þrumuvagninum sem stendur við þjóðveg 1 hjá Vík í Mýrdal.

Ingi­björg Smith söng­kona lést í Bandaríkjunum í maí, 95 ára að aldri. Ingibjörg var ein af fyrstu dægurlagastjörnum Íslands og söng lög á Við geng­um tvö, Oft spurði ég mömmu og Nú ligg­ur vel á mér.

Jón Nordal lést á árinu.

Jón Nordal, tónskáld og fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, lést í desember, 98 ára að aldri. Hann var meðal ástsælustu tónskálda þjóðarinnar og einn helsti forystumaður í uppbyggingu tónlistarlífs á Íslandi á síðastliðinni öld.

Nína Gauta­dótt­ir mynd­list­ar­kona lést í des­em­ber, 78 ára að aldri. Nína hélt sína fyrstu einka­sýn­ingu á Kjar­vals­stöðum 1980 og hélt á ferli sín­um yfir þrjátíu einka­sýn­ing­ar og tók þátt í mörg­um sam­sýn­ing­um.

Ólaf­ur Vign­ir Al­berts­son pí­anó­leik­ari lést í ágúst, 88 ára að aldri. Á tón­list­ar­ferli sín­um lék Ólaf­ur Vign­ir á mikl­um fjölda tón­leika inn­an­lands, í Evr­ópu og í Norður-Am­er­íku. Hljóm­plöt­urn­ar og geisladisk­arn­ir sem hann lék inn á, með öll­um fremstu söngvur­um lands­ins, eru fimmtíu til sextíu tals­ins.

Pétur Einarsson , leikari, leikstjóri og fyrrverandi skólastjóri Leiklistarskóla Íslands, lést í apríl, 83 ára að aldri. Pétur kom víða við á ferlinum en hann vann lengst af hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þá var hann fyrsti skólastjóri Leiklistarskóla Íslands eftir stofnun hans árið 1975.

Róbert Örn Hjálmtýsson tónlistarmaður lést í júní. Hann var fæddur árið 1977 og er einkum þekktur fyrir að vera forsprakki hljómsveitarinnar Hljómsveitin Ég og PoPPaRoFT. Þá spilaði hann undir, útsetti og hljóðblandaði þrjár plötur Sölva Jónssonar (Dölla) og gerði eina hljómplötu með hljómsveitinni Spilagaldrar.

Sig­ríður Hann­es­dótt­ir, leik­kona og stofn­andi Brúðubíls­ins, lést í júní, 92 ára að aldri. Hún lærði leiklist hjá Ævari Kvaran og síðar Leiklistarskólanum og átti síðar eftir að stofna Brúðubílinn árið 1976.

Sigurður Kristinsson , Siggi Kristins, sem var meðal stofnmeðlima hinnar fornfrægu hljómsveitar Sniglabandsins, lést í júlí, 59 ára gamall. Siggi var sömuleiðis mikill bílaspekúlant.

Sig­urður Örn Brynj­ólfs­son, frum­kvöðull í teikni­mynda­gerð á Íslandi og grafískur hönnuður, lést í Eistlandi í nóvember, 77 ára að aldri.

Torfi Jónsson myndlistarmaður og kennari, lést í ágúst, 89 ára að aldri. Torfi málaði oft á tíðum stórar vatnslitamyndir úti í íslenskri náttúru og þá var hann eftirsóttur kennari í skrautskrift.

Vilberg Valdal Vilbergsson , nikkari og rakari, betur þekktur sem Villi Valli, lést í nóvember, 94 ára að aldri. Villi Valli var alla sína tíð mikilvægur þáttur í tónlistarlífi Vestfjarða.

Þorvaldur Halldórsson tónlistarmaður, lést í ágúst, 79 ára að aldri. Þorvaldur fæddist á Siglufirði árið 1944 og lærði þar bæði á gítar og klarinett. Hann fór í menntaskóla á Akureyri og byrjaði þar að syngja með Busabandinu og síðar Hljómsveit Ingimars Eydal og fleiri hljómsveitum. Hann söng lagið Á sjó með hljómsveit Ingimars.

Þóra Kristjáns­dótt­ir list­fræðing­ur lést í september, 85 ára að aldri. Þóra starfaði víða á sínum starfsferli, meðal annars hjá Ríkisútvarpinu, Listasafni Íslands og Þjóðminjasafninu. Hún sat i fram­kvæmda­stjórn Lista­há­tiðar í Reykja­vík og stjórn margra lista- og menn­ing­ar­stofn­ana hér á landi.

Skólar og vísindi

Ágúst Val­fells kjarn­orku­verk­fræðing­ur lést í nóvember, níræður að aldri. Að loknu námi flutti Ágúst til Íslands þar sem hann varð fyrsti forstöðumaður Almannavarna 1962 til 1964. Á árunum 1964 til 1981 vann hann bæði við rannsóknir og kennslu við Iowa State University og við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Eftir það fékkst hann við atvinnurekstur, bæði sem ráðgjafi og verkfræðingur.

Árni Indriðason , menntaskólakennari og sagnfræðingur, lést í desember, 74 ára að aldri. Eftir útskrift úr háskóla byrjaði Árni að kenna sögu við Menntaskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi sérstaklega sögu Forngrikkja og Rómaveldis. Hann starfaði við MR allan sinn starfsferil og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Árni gerði einnig garðinn frægan sem handboltamaður á sínum yngri árum og spilaði meðal annars með gullaldarliði Víkinga og um sextíu landsleiki.

Bergur Felixson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Leikskóla Reykjavíkur, lést í desember, 87 ára að aldri. Hann starfaði tók við starfi framkvæmdastjóri Leikskóla Reykjavíkur árið 1978 og starfaði þar þar til hann fór á eftirlaun árið 2007.

Magnús Már Kristjánsson , prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, lést í júlí, 66 ára að aldri. Magnús var deildarstjóri lífefnafræðideildar innan Raunvísindastofnunar 2009 til 2022.

Páll Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóri féll frá á árinu.

Páll Bergþórsson , fyrrverandi veðurstofustjóri, lést í mars, hundrað ára að aldri. Eftir nám hóf Páll störf sem veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands en meginverkefni hans á stofnuninni allt til 1982 sneru að almennri veðurspáþjónustu og flugveðurþjónustu. Hann var deildarstjóri veðurfarsrannsókna frá 1982 til 1989, en árið 1989 var Páll skipaður veðurstofustjóri frá 1. október og gegndi því embætti til ársloka 1993, þá sjötugur að aldri.

Ragnar Kristján Stefánsson  jarðskjálftafræðingur lést í júní, 85 ára að aldri. Ragnar var landsþekktur sem helsti jarðskjálftafræðingur þjóðarinnar, kallaður Ragnar skjálfti. Ragnar var ekki síður þekktur fyrir félagsstörf, en hann var áberandi í þjóðmálaumræðunni sem róttækur vinstri maður.

Sig­urður Björns­son, krabba­meins­lækn­ir og fyrr­ver­andi formaður Krabba­meins­fé­lags Íslands, lést í sept­ember, 82 ára að aldri. Hann starfaði lengi á Landspítalanum og var formaður Krabbameinsfélagsins á árunum 1998 til 2008.

Sigurður Hjartarson , fyrrverandi menntaskólakennari og stofnandi Hins íslenzka reðasafns, lést febrúar, 82 ára að aldri. Sigurður starfaði sem kennari og skólastjóri í 37 ár og stofnaði svo Hið íslenzka reðasafn árið 1997.

Íþróttir

Dýri Guðmundsson endurskoðandi, fyrrverandi knattspyrnukappi og gítarleikari lést í febrúar. Hann fæddist 1951. Dýri var landsliðsmaður í knattspyrnu en hann var í sigursælum liðum FH og svo síðar í Val.

Halldór B. Jónsson , fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar Fram og fyrrum varaformaður KSÍ, lést í júlí, 75 ára gamall. Halldór tók við formennsku knattspyrnudeildar Fram árið 1981. Síðar varð hann varaformaður KSÍ og sá mikið um innra starf innan Knattspyrnusambands Íslands.

Helga Har­alds­dótt­ir, íþrótta­kenn­ari og sunddrottn­ing, í september, 87 ára að aldri. Á ferli sínum var hún margfaldur Íslandsmeistari og setti vel á fjórða tug Íslandsmeta.

Karl Gunnlaugsson , akstursíþróttamaður og athafnamaður, lést í febrúar, 57 ára að aldri. Karl vann til fjölda Íslandsmeistaratitla á ferli sínum og var kjörinn akstursíþróttamaður ársins 1991. Hann stofnaði á sínum tíma fyrirtækið Karls Neon og hóf svo innflutning á KTM-mótorhjólum árið 1994.

Skúli Margeir Óskarsson kraftlyftingamaður lést í júní, 75 ára að aldri. Skúli varð fyrstur íslenskra íþróttamanna til að setja heimsmet, þegar hann setti heimsmet í réttstöðulyftingum árið 1980 og var brautryðjandi á sviði kraftlyftinga á Íslandi.

Vignir Jónasson , hestamaður sem hafði ræktað íslenska hesta við góðan orðstír í Svíþjóð, lést af slysförum í Svíþjóð í janúar. Hann var 52 ára gamall. Á ferli sínum vann hann meðal annars til verðlauna á heimsmeistaramóti íslenska hestins og keppti þar fyrir hönd Svíþjóðar.

Fjölmiðlar, dómstólar, stjórnsýsla, kirkjan, félagsstörf og fleira

Bryndís Klara Birgisdóttir menntaskólanemi lést af sárum sínum eftir stunguárás í miðborg Reykjavíkur á Menningarnótt í ágúst. Andlát hennar hreyfði við þjóðinni, en foreldrar hennar hafa eftir árásina boðað þann boðskap að andlát hennar verði til þess að vopnaburður heyri sögunni til og kærleikurinn verði eina vopnið.

Ellý Katrín Guðmundsdóttir , lögfræðingur, fyrrverandi borgarritari og sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, lést í júní, 59 ára að aldri. Ellý átti sæti í fjölda nefnda og ráða og var meðal annars kjörin af Alþingi í stjórnlaganefnd. Þá sat hún í stjórn Sæmundar fróða, stofnunar Háskóla Íslands um sjálfbæra þróun. Ellý hlaut heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu sumarið 2020 og riddarakross fyrir störf á opinberum vettvangi og framlag til opinskárrar umræðu um Alzheimer sjúkdóminn.

Frank Martin Halldórsson , fyrrverandi sóknarprestur í Nessókn, lést í júlí, níræður að aldri. Hann starfaði lengi sem stundakennari gið Mýrarhúsaskóla og Hagaskóla. Frank var skipaður sóknarprestur í Nesprestakalli frá 1964 og gegndi því starfi til 2004.

Gunnlaugur Rögnvaldsson , blaðamaður og ljósmyndari, lést í apríl, 62 ára að aldri. Gunnlaugur var meðal annars þekktur fyrir umfjöllun sína um Formúlu 1 og aðrar aktursíþróttir hér á landi og stýrði þáttum og lýsti keppnum í sjónvarpi.

Hilmar Bragi Jónsson var einn þekktasti matreiðslumeistari landsins.

Hilmar Bragi Jónsson matreiðslumeistari lést í ágúst, 81 árs að aldri. Hilmar var einn þekktasti matreiðslumaður landsins og lifði ævintýralegu lífi; eldaði ofan í kónga, drottningar, þjóðhöfðingja, sendiherra, varaforseta, þingmenn og aðra hátt setta embættismenn víða um heim.Hann var matreiðslumeistari Vigdísar Finnbogadóttur meðan hún gegndi embætti forseta Íslands.

Hendrik Björn Hermannsson veitingamaður lést í maí aðeins 49 ára gamall. Hendrik var þekktur þjónn og veitingamaður og var viðloðandi veitingageirann í þrjátíu ár. Síðustu árin stofnaði hann og rak fyrirtækið H veitingar, sem annaðist veisluþjónustu og rak veislueldhús í Reykjavík sem og á Hvanneyri.

Ívar Hauk­ur Jóns­son, lög­fræðing­ur og fyrr­ver­andi rit­stjóri Þjóðvilj­ans, lést í nóvember, 97 ára að aldri. Hann var rit­stjóri Þjóðviljans frá 1963 til 1971, en þá tók hann við starfi skrif­stofu­stjóra og fjár­mála­full­trúa Þjóðleik­húss­ins og starfaði hann þar til ársins 1997.

Karl Sigurbjörnsson biskup lést í febrúar, 77 ára að aldri. Karl var skipaður sókn­arprest­ur í Hall­grím­sprestakalli í Reykja­vík 1975 og þjónaði þar í um 23 ár. Það var svo 1998 sem Karl var kjörinn biskup yfir Íslandi, embætti sem hann gegndi í fjórtán ár. Eftir að biskupstíð hans lauk þjónaði hann um hríð í Dómkirkjunni.

Lúðvík Pétursson , vélstjóri og gröfumaður, lést þegar hann féll í sprungu við sprungufyllingar í Grindavík í febrúar. Málið hreyfði mikið við þjóðinni á erfiðum tímum.

Matthías Johannessen , fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og skáld, lést í mars, 94 ára að aldri. Matthías ritstýrði blaðinu í rúm fjörutíu ár, frá árinu 1959 til 2000.Auk þess að starfa sem ritstjóri skrifaði Matthías einnig tugi bóka, ljóðabækur, leikrit og viðtalsbækur.

Matthías Johannesen tók við stöðu ritstjóra Morgunblaðsins árið 1959, þegar hann var 29 ára gamall.

Pétur Guðfinnsson , fyrrverandi útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri Sjónvarpssins, lést í apríl, 94 ára að aldri. Hann starfaði hjá Evrópuráðinu í Strassborg á árunum 1955 til 1964 og var þá skipaður framkvæmdastjóri Sjónvarpsins og var þannig fyrsti starfsmaður Sjónvarpsins. Hann var þá einnig staðgengill útvarpsstjóra í fjarveru hans þar til hann tók við stöðu útvarpsstjóra árið 1996. Hann hætti svo störfum hjá Útvarpinu fyrir aldurs sakir árið 1997. 

Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt lést í júlí, 89 ára að aldri. Fáir hafa á ferli sínum haft jafn rík áhrif og hann á mótun mannngerðra útivistarsvæða hérlendis, bæði innan borgarlandsins sem og í bæjum víða um land.

Sigurður Helgi Þorsteins Guðjónsson , hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi formaður Húseigendafélagsins, lést í september, 71 árs að aldri. Hann starfaði lengi hjá Húseigendafélaginu, var lögfræðingur og framkvæmdastjóri félagsins frá 1977 til 1985 og aftur frá 1992 til 2024. Þá var hann formaður félagsins frá árinu 1995.

Sigurður Kristófer McQuillan Óskarsson , formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, lést af slysfötum við björgunarsveitaræfingar í Tungulfljóti í nóvember. Hann varð 36 ára.

Sindri Freyr Guðmundsson lést í maí, 26 ára gamall, eftir langa baráttu við arfgenga heilablæðingu. Sindri Freyr vakti mikla athygli þegar hann sagði frá baráttu sinni við sjúkdóminn hræðilega í Íslandi í dag í ársbyrjun 2023. Ekki aðeins eigin hetjulegri baráttu heldur fleiri fjölskyldumeðlima. Móðir hans lést úr sjúkdómnum þegar Sindri var sjö ára.

Viðar Skjóldal , sem lengi var ein helsta Snapchat-stjarna landsins og betur þekktur undir nafninu „Enski“, andaðist á Spáni í júlí hvar hann hafði verið búsettur ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. Viðar var 39 ára gamall.

Viðskipti

Benedikt Sveinsson , athafnamaður og lögmaður, lést í september, 86 ára að aldri. Benedikt kom víða við á löngum ferli, stundaði lögmennsku og var oddviti Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og formaður bæjarráðs Garðabæjar á níunda og tíunda áratugnum. Hann var jafnframt áberandi í viðskiptalífinu. Benedikt er faðir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Björn Jónasson útgefandi lést í september, sjötugur að aldri. Björn stofnaði meðal annars út­gáf­urnar Svart á hvítu, sem gaf til að mynda út Íslend­inga­sög­urn­ar með nú­tímastaf­setn­ingu, Sturlunga­sögu og heild­ar­verk Jónas­ar Hall­gríms­son­ar, og Útgáfu­fé­lagið Guðrún sem Björn stofnaði árið 1992. Sú útgáfa gaf meðal annars út Há­va­mál á fimmtán tungu­mál­um og Snorra Eddu með myndskreyt­ing­um þekktra lista­manna.

Frank Walter Sands , at­hafnamaður og stofn­andi veit­ingastaðanna Vega­móta og Reykja­vík Bag­el Comp­any, lést í október, aðeins 58 ára gam­all. Frank starfaði í seinni tíð sem leiðsögumaður og pistlahöfundur hjá Iceland Review.

Gísli Hinrik Sigurðsson , stofnandi Garðheima, lést í janúar, 79 ára að aldri.Hann festi kaup á Verslun Sölufélags garðyrkjumanna árið 1991 og stofnaði svo Garðheima við Stekkjarbakka í desember 1999. Hann stjórnaði fyrirtækinu fram á efri ár, en börn hjónanna tóku svo við rekstrinum.

Helga Mogensen var í hópi helstu brautryðjanda á sviði uppbyggingar og reksturs grænmetisveitingastaða í Reykjavík.

Helga Mogensen matarfrömuður og frumkvöðull lést í september, sjötíu ára að aldri.Helga var í hópi helstu brautryðjanda á sviði uppbyggingar og reksturs grænmetisveitingastaða í Reykjavík og má í því samhengi nefna veitingastaðinn Á næstu grösum sem hún ásamt vinum opnaði árið 1978 og rak um árabil, og síðar heilsuveitingastaðina Krúsku og Maður lifandi.

Hild­ur Hermóðsdótt­ir , kenn­ari og bóka­út­gef­andi, lést í febrúar, 73 ára að aldri. Hún starfaði lengi sem kennari og ritstjóri barnabóka hjá Bókaútgáfu Máls og menningar. Árið 2000 stofnaði Hildur svo Bókaútgáfuna Sölku ásamt Þóru Sigríði Ingólfsdóttur, en Hildur tók alfarið við rekstrinum árið 2002. Hún seldi svo útgáfuna árið 2015 og stofnaði þá Textasmiðjuna.

Hjalti Einarsson vélvirki lést í febrúar, 85 ára að aldri. Hjalti er kunnastur fyrir að hafa byggt upp VHE, eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins.

Jón Guðmundsson , fasteignasali og eigandi Fasteignamarkaðsins, lést í nóvember, 82 ára að aldri. Jón kom að pólitísku starfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var bæði varabæjarfulltrúi í Neskaupsstað á áttunda áratugnum og á lista flokksins í tvennum Alþingiskosningum á sama áratug.

Jose Luis Garcia veitingamaður varð bráðkvaddur í júní. Hann var fæddur 1961 og frá Hondúras. Hann hafði starfað áratugum saman að veitingarekstri í Reykjavík og er líklega þekktastur fyrir að venndur við staðinn Caruso.

Karl J. Stein­gríms­son , athafnamaður betur þekktur sem Kalli í Pelsinum lést í febrúar, 76 ára að aldri.Karl stofnaði, ásamt eiginkonu sinni, verslunina Pelsinn, sem var rekin í rúmlega fjörutíu ár. Hann var jafnframt umsvifamikill í fasteignabransanum á Íslandi. Þá æfði hann fótbolta hjá KR og spilaði með ung­linga­landsliði Íslands árið 1965.

Magni Reynir Magnússon kaupmaður lést í apríl, 88 ára að aldri.Magni var gjarnan kenndur við spilabúð sína „Hjá Magna“ og setti hann heldur betur lit sinn á miðborgina.

Sig­fús Ragn­ar Sig­fús­son, fyrrverandi for­stjóri Heklu, lést í apríl, 79 ára að aldri. Sig­fús tók við forstjórastöðunni hjá Heklu árið 1990, en við eig­enda­breyt­ing­ar á bílaum­borðinu árið 2002 vann Sig­fús áfram í nokk­ur ár sem starf­andi stjórn­ar­formaður.

Þráinn Hafstein Kristjánsson , athafnamaður, tónlistarmaður og veitingastjóri, lést í Kanada í október, 84 ára gamall.

Össur Kristinsson , stofnandi Össurar, lést í febrúar, áttræður að aldri. Össur stofnaði stoðtækjafyrirtækið Össur árið 1971 og tók þá við þróunarvinna sem leiddi til þróunar sílikonhulsunnar. Vöxtur fyrirtækisins var mikill á tíunda áratugnum og fór félagið á hlutabréfamarkað árið 1999 og var svo skráð á markað í Danmörku tíu árum síðar. Hjá fyrirtækinu starfa nú um fjögur þúsund manns í 36 löndum.

Samantektin var unnin upp úr andlátsfréttum sem birst hafa á Vísi og í Morgunblaðinu.


Tengdar fréttir

Þessir Ís­lendingar kvöddu á árinu 2020

Fjöldi þjóðþekktra Íslendingar kvaddi á árinu sem senn er á enda. Í hópi þeirra eru meðal annarra einhver ástsælasti söngvari þjóðarinnar, einhver vinsælasti skemmtikraftur landsins, frumkvöðull á sviði líkamsræktar á Íslandi, fyrrverandi ráðherrar og höfundur bókanna um Maxímús Músíkús. Þá þögnuðu einhverjar af þekktustu útvarpsröddum landsins.

Þessir Ís­lendingar kvöddu á árinu 2018

Margir þjóðþekktir Íslendingar kvöddu þennan heim á árinu sem senn er á enda, þar á meðal einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, heimsfrægt tónskáld, fyrrverandi ráðherra og eitt fremsta ljóðskáld þjóðarinnar.






×