Körfubolti

„Spiluðum glimrandi vel í sókn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson hefur stýrt Stjörnunni til sigurs í tíu af fyrstu ellefu leikjum liðsins í Bónus deild karla.
Baldur Þór Ragnarsson hefur stýrt Stjörnunni til sigurs í tíu af fyrstu ellefu leikjum liðsins í Bónus deild karla. vísir/anton

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, fór glaður út á Reykjanesbrautina eftir sigurinn á Njarðvík í Bónus deild karla í kvöld, 90-100.

„Við skoruðum hundrað stig. Hilmar [Smári Henningsson] var frábær og margir aðrir að leggja í púkkið. Það var það sem skildi á milli,“ sagði Baldur eftir leikinn í Njarðvík.

Hann hefur séð sína menn spila betri vörn en í kvöld en flest gekk upp í sókninni.

„Við setjum mikla orku í leikinn á báðum endum vallarins og þetta gekk upp. Við hittum úr stórum skotum. Þetta var erfitt. Við náðum ekki stoppum. [Dominykas] Milka var með fjóra þrista og Veigar Páll [Alexandersson] hrikalega öflugur. En við spiluðum glimrandi vel í sókn, bæði sem einstaklingar og lið,“ sagði Baldur.

„Alltaf þegar þeir komu með eitthvað svöruðu þessir strákar. Bara hrós á þá.“

Stjarnan er á toppi Bónus deildarinnar með tuttugu stig af 22 mögulegum. Baldur er skiljanlega sáttur með hvernig hefur gengið í vetur.

„Ég er ánægður með það. Maður fer inn í alla leiki til að vinna og það er gaman þegar það gengur upp. Við tökum nokkurra daga frí og svo er bara þetta bara sama og alltaf; fókus, næsti leikur og leggja sig fram,“ sagði Baldur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×