Enski boltinn

Loks búið að ganga frá sölu Everton

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Undanfarin ár hafa verið mögur hjá Everton en nú horfir til betri tíma. 
Undanfarin ár hafa verið mögur hjá Everton en nú horfir til betri tíma.  Visionhaus/Getty Images

Eftir rúmlega tveggja ára söluferli hefur Farhad Moshiri loks losnað undan eignarhaldi á enska úrvalsdeildarfélaginu Everton. Bandaríkjamaðurinn Dan Friedkin hefur fest kaup á 99,5 prósenta hlut, sem talið er að hann greiði rúmar fjögur hundruð milljónir punda fyrir.

Gengið var frá samkomulagi milli aðilanna, Moshiri og Friedkin, í september. Nú þegar samþykki ensku úrvalsdeildarinnar og enska knattspyrnusambandsins liggur fyrir er salan loks frágengin.

Salan hefur átt sér langan aðdraganda og Friedkin Group var fjórði aðilinn sem Farhad Moshiri fór í samningaviðræður við um kaup á Everton á síðustu tveimur árum.

Skuldastaða félagsins er slæm og spilar þar stóran hlut uppbygging á nýjum heimavelli við Bramley Moor höfnina í Liverpool, sem þurfti að taka neyðarlán fyrir í maí. Einnig hefur félagið ekki fylgt fjárhagsreglum ensku úrvalsdeildarinnar í leikmannakaupum og lenti í átta stiga frádrætti á síðasta tímabili.

Lofar að klára heimavöllinn og heldur líklega Sean Dyche

Nýi eigandinn, Dan Friedkin, lofaði stuðningsmönnum í opnu bréfi sem hann sendi að klára uppbyggingu á leikvanginum.

Hann er metinn á rúma sex milljarða punda samkvæmt Forbes og á einnig meirihluta í ítalska liðinu Roma.

Fjölmiðlar í Bretlandi telja líklegt að hann taki við störfum stjórnarformanns hjá Everton og vilji halda Sean Dyche sem þjálfara karlaliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×