Gengið var frá samkomulagi milli aðilanna, Moshiri og Friedkin, í september. Nú þegar samþykki ensku úrvalsdeildarinnar og enska knattspyrnusambandsins liggur fyrir er salan loks frágengin.
Salan hefur átt sér langan aðdraganda og Friedkin Group var fjórði aðilinn sem Farhad Moshiri fór í samningaviðræður við um kaup á Everton á síðustu tveimur árum.
Skuldastaða félagsins er slæm og spilar þar stóran hlut uppbygging á nýjum heimavelli við Bramley Moor höfnina í Liverpool, sem þurfti að taka neyðarlán fyrir í maí. Einnig hefur félagið ekki fylgt fjárhagsreglum ensku úrvalsdeildarinnar í leikmannakaupum og lenti í átta stiga frádrætti á síðasta tímabili.
Lofar að klára heimavöllinn og heldur líklega Sean Dyche
Nýi eigandinn, Dan Friedkin, lofaði stuðningsmönnum í opnu bréfi sem hann sendi að klára uppbyggingu á leikvanginum.
Hann er metinn á rúma sex milljarða punda samkvæmt Forbes og á einnig meirihluta í ítalska liðinu Roma.
Fjölmiðlar í Bretlandi telja líklegt að hann taki við störfum stjórnarformanns hjá Everton og vilji halda Sean Dyche sem þjálfara karlaliðsins.